Hollvættur á heiði frumsýnt á morgun

Nýtt íslenskt leikverk, Hollvættur á heiði, verður frumsýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Verkið er samið inn í austfirskt umhverfi. Það er framleitt af Sláturhúsinu og er um atvinnusýningu sem er óvenjulegt fyrir austfirskar leiksýningar. Sláturhússtjórinn segir mikilvægt að tengja saman áhugafólk og atvinnufólk í leikhúsinu.

„Frá upphafi hefur markmiðið verið að setja upp atvinnusýningu þar sem allir fengju laun fyrir sína þátttöku og að tengja atvinnufólk við grasrótina hér. Ég er ánægð með það,“ segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, sláturhússtjóri.

Þór Tulinius, sem leikstýrði leiksýningu um Sunnefu Jónsdóttur í Sláturhúsinu haustið 2020, samdi verkið fyrir Sláturhúsið sem er innblásið af austfirskum þjóðháttum, staðháttum sögu og menningu. Í því segir frá systkinum sem eru að hjálpa konu frænda síns í göngum. Maðurinn hennar hvarf fyrir tveimur árum en hún hefur haldið sauðfjárbúinu gangandi.

Þetta haustið bætist grátt ofan á svart þegar uppáhaldskindina, Þokkabót, vantar af fjalli. Það fær á konuna og krakkarnir ákveða um nótt að halda til fjalls að leita að kindinni. Þar rekast þau á ýmsar vættir og allir verða að standa saman til að komast heilir heim.

Leiða saman áhugafólk og atvinnufólk


Þrettán leikarar taka þátt í sýningunni. Aðalhlutverkin þrjú eru í höndum atvinnuleikara sem koma af höfuðborgarsvæðinu en önnur hlutverk í höndum heimafólks. Lýsing, tónlist, búningar og sviðsmynd er í höndum þaulvans fólks úr íslensku leikhúsi. Leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir, hefur leikstýrt fjölda sýninga, meðal annars Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu.

Ragnhildur segir mikinn feng í að fá þetta fólk til að vinna með heimafólki, jafnt innan sem utan sviðs. „Sýningar áhugamannaleikfélaga um allt land eru mikilvægar og þarfar öllum samfélögum. Oft kemur ungt hæfileikafólk upp í gegnum þær sýningar.

Síðan er mikilvægt fyrir þá grasrót og áhorfendur að fá sýningar sem unnar eru af atvinnufólki. Þær eru dýrari og meira í þær lagt en áhugasýningarnar með lengra og strangara æfingaferli. Þar með er á þeim annar bragur.

Það eflir sjálfstraust og hæfileika áhugafólksins hér að taka þátt í atvinnusýningu. Við erum með unga leikara héðan í sýningunni sem standa sig óhemju vel. Fyrir þá hefur þetta verið mikið lærdómsferli en þeir hafa sýnt aga, hæfileika og frumkvæði auk þess að taka leikstjórninni vel. Það er mikilvægt fyrir unglingana okkar að sjá hvaða möguleikar eru í boði og að hægt sé að starfa sem leikari utan Reykjavíkur,“ segir Ragnhildur.

Mikil vinna að baki


Þetta er fyrsta leiksýningin sem Sláturhúsið framleiðir sjálft en í því felst ábyrgð á öllu utanumhaldi, svo sem að ráða bæði leikara og annað starfsfólk. Ragnhildur segir að vendipunkturinn hafi verið hár styrkur úr Sviðslistasjóði en Uppbyggingarsjóður Austurlands hafi einnig hjálpað. Síðan sé að baki botnlaus vinna.

„Þetta er gífurlegt verkefni. Leikhópurinn hefur lagt dag við nótt en síðan er það allt utanumhaldið. Ég er ekki viss um að almenningur geri sér grein fyrir hversu margar vinnustundir liggja að baki gerð leikmyndar eða því að setja upp ljósin.

Þetta hefur verið afar lærdómsríkt og við búum af reynslunni. Við vonum að þetta sé byrjunin á að geta framleitt og sett upp atvinnuleiksýningar í Sláturhúsinu.“

Uppselt er á frumsýninguna á morgun laugardag en næsta sýning verður á sunnudag. Síðan verður sýnt allar helgar í nóvember og þá fyrstu í desember. Ragnhildur segir mikla eftirvæntingu í hópnum. „Fyrsta æfing með áhorfendum var í gær. Þar mætti fólk á öllum aldri enda er þetta fjölskyldusýning. Það var mikið hlegið og klappað. Auðvitað er síðan spenningur fyrir frumsýningunni. Við höfum skráð verkið til Grímunnar (íslensku leikhúsverðlaunanna) og fulltrúar úr valnefndinni munu mæta á sýningar í gegnum mánuðinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar