Hreindýr í túninu á Hauksstöðum

Hreindýrin koma vel undan vetri að því er best virðist.  Nú stendur burður yfir hjá kúnum sem flestar eru komnar á burðarsvæðin, til dæmis inn undir Snæfelli.   Tarfarnir og gelddýrin halda sig hins vegar að mestu út í byggð og bíta tún bænda.

hreindyr_hauksstadir.jpgÞó hreindýrskýrnar séu flestar komnar á burðarsvæðin inn undir Snæfelli og niður í víkum og fjörðum er enn mikið af törfum og gelddýrum í byggð og bíta þá gjarna græn grös af túnum bænda, sem þykja þetta hvimleiðar heimsóknir.

Burðurinn stendur yfir kringum miðjan mai, frá svona 10. mai og fram yfir 20. mai og er að mestu lokið um þessar mundir.

Tarfarnir og gelddýrin halda sig hinsvegar enn að mestu úti í byggð.  Ungu gelddýrin fara að hugsa sér til hreyfings uppúr þessu, þau sem ekki eru enn farin til fjalla en þangað halda þau gjarnan á undan törfunum sem geta verið nokkuð þaulsætnir í byggð og gera sig oft heimakomna í túnum fram í júlí.

Þeir eru vænir tarfarnir 25 sem halda sig um þessar mundir í túninu á Hauksstöðum fyrir innan Haukstaðahólinn og bíta grængresið þar makindalega af túninu, þetta eru ungir og vænir tarfar á aldrinum tveggja til fjögurra vetra að því er sýnist í fljótu bragði.  Tarfarnir þeir arna verða eftirsótt veiðibráð þegar hausta tekur og víst er að það klæjar fleiri menn í gikkfingurinn sem keyra fram hjá þeim en bóndann á Hauksstöðum sem er vinsæll hreindýraveiðileiðsögumaður.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar