Hreindýrskálfar gæfir sem hundar - Myndir

Í landi Vínlands í Fellum lifa tveir hreindýrskálfar í girðingu. Þeim var bjargað ungum af fólki sem með mikilli vinnu hefur náð að halda þeim lifandi. Kálfarnir eru hugulseminni þakklátir því þeir vilja leika sér og láta klappa sér af fólkinu.

„Við fundum þá þegar við fórum inn á Fljótsdalsheiði í maí. Við sáum þá fyrst frá veginum, bara tvo. Við vorkenndum þeim en létum þá eiga sig.

Síðan þegar við komum til baka nokkrum tímum síðar voru þeir enn á sama stað, umkomulausir. Við skoðuðum í kring en það var engin hreinkýr nálægt. Þá ákváðum við að taka þá með okkur,“ segja Fannar Magnússon og Björk Björnsdóttir.

Þau áætla að kálfarnir tveir, Garpur og Mosi, hafi verið 7-10 daga gamlir þegar þeir fundust. Þau telja ólíklegt að þeir séu albræður, yfirleitt eiga hreindýrskýr ekki nema einn kálf og ef þeir eru tveir verður yfirleitt þeirra fljótlega undir.

Hörð barátta við að halda þeim á lífi

Þau tóku kálfana tvo heim með sér og komu þeim fyrir í girðingu við Vínland. Framundan var hörð lífsbarátta. Þekkt er að erfitt er að flytja hreindýr milli svæða og til eru sögur af kálfum að austan sem fluttir hafa í Húsdýragarðinn í Reykjavík sem dáið hafa fljótt. Er það meðal annars talið stafa af efni sem dýrin framleiða við ofsahræðslu.

Það var hins vegar ekki vandamálið hjá Mosa og Garpi heldur að þeir nærðust illa, sú næring sem fór inn að framan kom samstundis út að aftan. Talið er að kálfarnir hafi fengið í sig hnýsil sem berst úr gæsum í hreindýr með móðurmjólkinni. Drjúgan tíma tók að drepa niður hnýsilinn en talið er að það hafi tekist nú.

Á tímabili var Mosa vart hugað líf. „Þetta voru mjög erfiðir dagar. Það þurfti að vaka yfir þeim, þeir voru svo veikburða. Það var mikil vinna að finna hvað hentaði þeim, á tímabili gáfum við þeim vökva undir húð,“ útskýra þau.

Hópur fólks hefur komið að því að halda Garpi og Mosa á lífi. Fannar og Björk segja Björn Magnússon, föður Bjarkar, eiga stærsta heiðurinn því hann hafi verið vakinn og sofinn yfir kálfunum á tímabili. Eigendur Vínlands hafi lagt sitt af mörkum auk þess sem Hjörtur Magnason og Diana Divilekova, dýralæknar á Egilsstöðum, veittu ráðleggingar um lyf og næringu. „Þetta fólk hefur lagt gríðarlega vinnu með okkur. Við erum þeim afar þakklát,“ segja Fannar og Björk.

Ekki hlaupið að því að finna girðingarstaura

En þótt búið sé að halda lífi í kálfunum síðustu fjóra mánuði er enn mikil vinna eftir fyrir veturinn. Brátt hætta kálfarnir á pela og þá þarf að finna aðra næringu. Björn varði meðal annars drjúgum tíma í sumar í að safna hreindýramosa og verið að er að skoða kjarnfóður. Þá þarf að stækka girðinguna sem þeir eru í.

Ekki er hlaupið að því þar sem hátt í þriggja metra háar girðingar þarf til að halda hreindýrum inni. „Það er ekki hlaupið að því að finna staura í slíka girðingu hérlendis,“ útskýrir Fannar.

Afar gæfir

Úti í náttúrunni eru hreindýr afar stygg og taka gjarnan á sprett reyni manneskja að nálgast þau. Dýrin sjá illa en eru á móti afar þefnæm. Garpur og Mosi eru hins vegar afar hændir af mönnum, nánast eins og hundar. Þeir koma stökkvandi þegar fólk kemur að girðingunni og vilja láta klappa sér eða leika við sig. Þeir elta fólk sem fer inn til þeirra, ýmist á hlaupum eða gangandi og stökkva upp og koma hlaupandi ef kallað er á þá.

Takmarkanir eru á hvernig hald megi villt dýr á Íslandi. Fannar og Björk eru í samtali við stofnanir hvernig hægt sé að halda utan um Garp og Mosa. Þau hafa einnig rætt við sveitarfélagið Múlaþing þar sem þau segjast hafa fengið afar jákvæðar undirtektir.

Fannar og Björk segjast ekki hafa skýrar hugmyndir um hvernig þau muni umgangast kálfana til framtíðar. Fyrsta hugsun hafi verið að halda þeim á lífi og mikil ánægja sé af því að umgangast þá. Þau benda á að þarna sé kjörið tækifæri til að fylgjast með hvernig hreindýr þroskast, fyrir utan að gefa fólki tækifæri á að kynnast og fræðast um dýrin.

Hreindyr Fannar Magg 0001 Web
Hreindyr Fannar Magg 0011 Web
Hreindyr Fannar Magg 0018 Web
Hreindyr Fannar Magg 0027 Web
Hreindyr Fannar Magg 0036 Web
Hreindyr Fannar Magg 0042 Web
Hreindyr Fannar Magg 0051 Web
Hreindyr Fannar Magg 0056 Web
Hreindyr Fannar Magg 0064 Web
Hreindyr Fannar Magg 0073 Web
Hreindyr Fannar Magg 0085 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.