Hreint hjarta í Sláturhúsinu
Heimildarmyndin Hreint hjarta eftir Grím Hákonarson, sem fékk áhorfendaverðlaunin á
heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði í vor, verður sýnd í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld.
Í myndinni segir frá Kristni Ágústi Friðfinnssyni sem hefur verið prestur á Selfossi og nágrenni í 20 ár. Hann er litríkur persónuleiki sem er ekkert óviðkomandi þegar kemur að þjónustunni við sóknarbörnin.
Kristinn þykir góður sálusorgari og margir leita til hans um hjálp. En á meðan hann leysir úr vandamálum annarra þarf hann að glíma við eigin vandamál og stendur í deilum við yfirvöld innan kirkjunnar.
Sýningin byrjar kl. 20:00 og er myndin 70 mínútur að lengd. Aðgangseyrir er 1.200 krónur.