Hrekkjavökuhryllingur á Góu

Tónlistarhópurinn Austuróp kemur fram í fyrsta sinn um helgina og flytur óhugnanlega tónlist í anda hrekkjavökunnar á Góu. Stjórnandi hópsins segir tilgang hans vera að skapa vettvang fyrir hæfileikaríkt tónlistarfólk til að spila saman og koma fram.

„Það er mikið af góðu tónlistarfólki á Héraði, jafn nemendur sem kennarar sem fólk sem hefur lært tónlist. Við höfum fólk sem jafnvel hefur farið langt í söngnámi, meðfram öðru námi, þótt það starfi ekki sem söngvarar.

Mig langaði mikið til að reyna að skapa vettvang fyrir þennan hóp því hér eru fordæmi fyrir óperuflutningi með miklum myndarskap þegar Keith Reed kenndi sér söng,“ segir Hlín Pétursdóttir Behrens, söngkennari og stjórnandi hópsins.

Sjö söngvarar eru í hópnum. Árni Friðriksson, Guðrún Sóley Guðmundsdóttir, Guðsteinn Fannar Jóhannsson, Jarþrúður Ólafsdóttir, Margrét Lára Þórarinsdóttir, Nanna Imsland og Úlfar Trausti Þórðarson. Undirleikarar eru Charles Ross, Torvald Gjerde og Wesley Stevens.

Hópurinn hittist upphaflega til æfinga í haust og ætlaði að koma fram í tengslum við hrekkjavöku. Samkomutakmarkanir settu strik í þau áform og því kemur hópurinn ekki fram fyrr en nú.

Hlín segir hrekkjavökuþemað byggja á tónlist sem feli í sér óhugnað enda furðuleg heit. Þar eru bæði þekkt þjóðlög og sönglög, svo sem Á Sprengisandi auk íslenskra vögguvísa sem snúast um að hóta börnum öllu illu, óperu- og söngleikjatónlist, svo sem eftir Kurt Weil og Benjamin Tritten auk ljóðalesturs. Ekki eru farnar troðnar slóðir í undirleiknum en meðal annars er leikið undir á harmonikku og rafgítar.

Hópurinn kemur fram á tveimur stöðum um helgina, Tehúsinu á Egilsstöðum á morgun laugardag klukkan 20:00 og í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði klukkan 17:00 á sunnudag.

Hópurinn hefur þegar hafið undirbúning næsta verk, kammeróperuna Kornið, sem frumflutt verður um mánaðarmótin apríl/maí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.