Hreyfing á Miðvangsblokk
Fasteignafélag í eigu Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf. hefur samið við Íslandsbanka um kaup á blokk að Miðvangi 6 á Egilsstöðum. Í fréttatilkynningu segir að kaupin séu háð skilyrðum sem m.a. lúta að því að hægt verði að selja tilskilinn fjölda íbúða í húsinu. Auk 22 íbúða er félagsaðstaða eldri borgara og 600 fermetra verslunar- og þjónusturými á jarðhæð hússins.
Á ýmsu hefur gengið með húsið en einkaaðili hóf að byggja húsið laust eftir árið 2000 og áttu þar að vera íbúðir fyrir eldra fólk. Malarvinnslan tók byggingu hússins yfir í kjölfar erfiðleika byggingaraðilans, en trauðlega gekk að selja íbúðir í húsinu þrátt fyrir mikla kynningu og Íslandsbanki eignaðist húsið þegar Malarvinnslan varð gjaldþrota 2008. Húsið hefur staðið dimmt og autt í miðbæ Egilsstaða og verið þyrnir í augum. Frágangi að utan og innan er ekki að fullu lokið, en gert er ráð fyrir að ef kaupendur fást að íbúðunum verði hægt að afhenda þær næsta sumar.
--
(mynd:fasteignir.is)