Hóta að aflífa hreindýrskálfinn
Umhverfisstofnun hefur hótað að aflífa hreindýrskálfinn Líf sæki
uppalendur hans á Sléttu í Reyðarfirði ekki um leyfi umhverfisráðherra
til að halda honum.
Kálfinum var bjargað af slökkviliðsmönnum í Reyðarfirði, sem fundu hann nýfæddan og móðurlausan, skammt frá álverinu. Þeir fóru með kálfinn í Sléttu þar sem hann hefur dvalið í góðu yfirlæti síðan. Í Svæðisfréttum var haft eftir Dagbjörtu Briem Gísladóttur, bónda á Sléttu, að heimilisfólkinu hefði brugðið við að fá bréfið.
Í því er bent á að samkvæmt lögum um dýravernd þarf leyfi umhverfisráðherra til að handsama villt dýr fyrir dýragarða eða önnur söfn. Þá segir einnig að hægt sé að fá undanþágu ef nota eigi dýrið við rannsóknir eða til ræktunar.
Dagbjört segir ekkert af þessu eiga við Líf. Hún segist hafa skilning á málinu en stofnunin hefði getað farið öðruvísi að.