Hvað er meira á Austurlandi um helgina en Bræðslan og Franskir dagar?

Tónlistarsumarið á Austurlandi. Þótt Bræðslan sé hápunktur helgarinnar á því sviði verða fleiri tónleikar í boði ásamt ýmsu öðru.

Það er fleira en tónlist á Borgarfirði því Bræðslunni fylgja ýmsir hliðarviðburðir. Frá árinu 2015 hefru þar verið gengin drusluganga gegn kynbundnu ofeldi. Lagt er af stað frá kirkjunni klukkan 12:30 að Fjarðarborg þar sem flutt verða tónlist og ávörp.

Tónlistarviðburðir eru víðar en á Borgarfirði. Á morgun klukkan fimm flytur Kormákur Valdimarsson og afi hans Guðmundur Höskuldsson lög eftir sig og aðra á gítara í Gallerí Þórsmörk í Neskaupstað.

Á sama tíma á sunnudag kemur Daníel Hjálmtýsson fram í Norðfjarðarkirkju. Daníel bjó um tíma á Austfjörðum og vann þar að breiðskífunni Labyrinthia sem kom út í lok síðasta árs. Framhlið plötunnar skartar listaverk sem Daníel vann með listamanninum Villa Jóns og er innblásið af Oddsskarði. Platan hefur fengið góðar viðtökur og er Daníel nýkominn heim úr tónleikaferðalagi um Austur-Evrópu.

Sýning sumarstarfa í Fjarðabyggð, listahópsins Eylist, er opinn í Templaranum á Fáskrúðsfirði um helgina. Sex ungmenni sýna þar fjölbreytta list sem þau hafa unnið að í sumar á sýningunni „Minna en ekkert!!“ Opið er til 19 í dag, en 12-16 laugardag og sunnudag.

Á Frönskum dögum eru einnig BMX Brós á ferðinni en þeir verða síðan við Sláturhúsið á Egilsstöðum klukkan 11:00 á sunnudag með sýningu og hjólanámskeið.

Listamaðurinn Páll Ivan frá Eiðum opnar nýja sýningu í galleríinu á Skriðuklaustri á morgun klukkan 14:00. Á sýningunni eru samsafn teikninga frá síðustu mánuðum auk tveggja stærri verka. Sýningin stendur út ágúst.

Í Beituskúrnum í Neskaupstað verður í kvöld klukkan hálf tíu tónlistarbingó sem Fanney Birna stjórnar. Um er að ræða sérstaka blöndu af hinu sígilda og spennandi spili í bland við tónlist.

Síðustu tónleikarnir í sumartónleikaröð Djúpavogskirkju verða á sunnudagskvöld klukkan 20:00. Þar kemur fram Una Torfa, sem er á ferð um landið, ásamt hljómsveit. Una spilar bæði sín þekktustu lög en einnig lög sem ekki hafa komið út enn.

Í annarri deild karla í knattspyrnu tekur Höttur/Huginn á móti KFG á morgun en KFA mætir KV syðra. FHL á þá einnig útileik gegn HK í Lengjudeild kvenna. Á sunnudag tekur Spyrnir á móti Berserkjum/Mídasi í 5. deild karla en Einherji á móti Smára í 2. deild kvenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar