Hvalir og stórar síldartorfur toppuðu vel heppnaða afmælishátíð Neistaflugs
„Fólk er heilt yfir mjög ánægt og þakklátt með helgina,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs.
Veðurblíðan lék við Norðfirðinga og gesti þeirra á 30 ára afmælishátíð Neistaflugs um helgina. María Bóel segir dagskrána hafa verið með hefðbundnu sniði og föstum dagskrárliðum á borð við Gunna og Felix sem tóku þátt í hátíðarhöldunum í tuttugasta skipti.
Telja að hátíðin hafi aldrei verið betur sótt
„Helgin gekk bara rosalega vel. Veðrið var frábært og við teljum að það hafi verið met mæting, þó svo maður geti aldrei skotið á nákvæman fjölda, en við höfum aldrei séð svona marga á fótboltavellinum á sunnudaginn,“ segir María Bóel, um stórtónleika þar sem hljómsveitirnar Flott og Stjórnin tróðu upp.
„Maður sér þetta nokkrum sinnum á ári“
Ekki var nóg með að vegleg skemmtidagskrá væri á landi, þá tjölduðu íbúar hafsins öllu til hátíðarhaldanna. Hlynur Sveinsson, íbúi í Neskaupstað var einn þeirra sem náði bæði myndum og myndböndum af stórum síldartorfum og hvölum úti á firði um helgina.
„Ég frétti nú bara af þessu þegar ég kom í Olíssjoppuna, að það væri fólk á öllum hugsanlegum bryggjum og grjótgörðum að fylgjast með þessu. Ég ákvað að fara með drónann og athuga hvort ég næði einhverjum myndum,“ segir Hlynur, sem og hann sannarlega gerði.
„Þarna voru þessar rosalegu síldartorfur sem hvalirnir höfðu rekið inn fjörðinn, en hvalirnir sem ég sá voru þrír. Þetta var skemmtilegt sjónarspil, síldartorfur, hvalir auk fólks á kajak og skemmtibátum.“
Aðspurður hvort slíkt sé algeng sjón, eða aðeins afmælisgjöf hvalasamfélagsins til Neistaflugs segir Hlynur; „Maður sér þetta nokkrum sinnum á ári, en það hittir kannski sjaldan á að það sé svona stillt og sjórinn svo sléttur, þannig að þetta gerist líklega oftar en við gerum okkur grein fyrir.“
Ljósmynd: Hlynur Sveinsson