Hvar verður tjaldstæðið?

Hugsanlegt er að ekki verði af því að svo stöddu að tjaldsvæði Egilsstaðabæjar verði flutt undir Egilsstaðakoll eins og til stóð, heldur verði fyrrverandi athafnasvæði Barra við Kaupvang tekið undir tjaldstæði. Það svæði er mjög skammt frá núverandi staðsetningu tjaldsvæðis, sem orðið er úr sér gengið og átti að leggja af eftir síðasta sumar. Landið undir núverandi tjaldsvæði hefur verið í eigu Kaupfélags Héraðsbúa. Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir málið í vinnslu og verði það rætt í bæjarráði á morgun. Engin ákvörðun liggi  fyrir.

fan2040014.jpg

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 4. júní 2008 var samþykkt að nýta heimild til eignarnáms á landi undir tjaldsvæði úr landi Egilsstaða II/Kollsstaða. Var atvinnumálanefnd falið að hefja undirbúning að hönnun og uppbyggingu tjaldsvæðis samkvæmt aðalskipulagi. Níu samþykktu en tveir bæjarstjórnarfulltrúar voru á móti. Fulltrúar Á-listans bentu á að sveitarfélagið ætti sjálft vannýtt land sem gæti hentað undir tjaldsvæði upp á Hömrum í næsta nágrenni miðbæjar Egilsstaða. Umræður um nýtt tjaldsvæði fyrir bæinn hafa staðið linnulítið í áratug eða meira.

 

30. júní 2008 fór Fljótsdalshérað þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta jarðarinnar Egilsstaða II / Kollsstaða, Fljótsdalshéraði. Eignarnámsþolar eru eigendur Egilsstaða II / Kollsstaða, þau Jón Pétursson, Margrét Pétursdóttir og Áslaug Pétursdóttir. Hið eignarnumda land er 4,22 ha. að stærð.

Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði 12. janúar 2009 að bætur til eignarnámsþola fyrir landið skyldu vera 17,6 milljónir. Talað er um að sveitarfélagið vilji nú hverfa frá því að nýta sér eignarnámsheimildina en það er alls óstaðfest.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar