„Hver fermetri kostaði jafn mikið og hálfur banani“
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði tekur sífellt á sig betri mynd, en miðstöðin er í gamla frystihúsinu á staðnum.
Húsið hafði staðið autt um árabil og var orðið mjög illa farið þegar þau Rósa Valtingojer og Zdenek Paták keyptu það, en í dag er miðstöðin rekin af þeim Rósu, Unu Sigurðardóttur og Vincent Wood.
„Fiskvinnslu í húsinu var hætt árið 2005, en það hafði gífurlegar afleiðingar fyrir ekki stærri stað – 32 einstaklingar misstu vinnuna, auk þess sem slíkri starfsemi fylgja afleidd störf sem lögðust þá einnig út af. Það fór í rauninni allt á annan endann og staðurinn varð ekki samur eftir, hálfgerður svefnbær,“ segir Una.
Til stóð að rífa húsið
Árið 2010 var var Samvinnufélag stofnað um húsið sem svo keypti það.
„Til stóð að rífa húsið sem var alveg hræðilegt því það eru miklir möguleikar í svona húsnæði ef það er tekið í einhverja notkun. Húsið fékkst á 101 þúsund krónur og samkvæmt útreikningum kostaði hver fermetri eins mikið og hálfur banani.
Okkur langar að sýna fram á það að skapandi frumkvöðlastarfsemi geti að einhverju leyti endurreist samfélag og stuðlað að uppbyggingu þess. Okkar markmið er að gera Stöðvarfjörð mögulegan til búsetu á ný með því að skapa jákvæð, heilbrigð og góð störf. Það er okkar að sýna að það er hægt að bregða mörgum litlum stólpum undir svona samfélag og reisa það við.“
Skapa aðstöðu sem jafnast á við bestu listaháskóla
Sköpunarmiðstöðin starfar þvert á strauma og stefnur, listgreinar og landamæri.
Búið er að útbúa járnsmíða og trésmíðaverkstæði, unnið er að gerð keramik og prentverkstæðis og eitt fullkomnasta hljóðver landsins er nú í smíðum í húsnæðinu.
Hugmyndafræði miðstöðvarinnar er að veita skapandi fólki vettvang til að vinna að verkum sínum og draumur aðstandenda er að lítil fyrirtæki geti þrifist innan veggja hennar.
„Við erum farin af stað með verkefni sem kallast „listamannadvöl“ en hingað geta listamenn komið og verið hjá okkur í ákveðinn tíma og unnið að verkum sínum. Það hefur gefist vel og erum við orðin fullbókuð allt þetta ár.
Einnig stefnum við á samstarf við grunn-, mennta- og háskóla landsins þar sem við erum að byggja upp aðstöðu sem jafnast á við mjög flotta listaháskóla, en fyrsti hópurinn kom einmitt til okkar um daginn, nemendur af listasviði VA.
Auk þessa erum við líka að byggja upp menningarlíf á staðnum og höldum reglulega tónleika í salnum okkar. Í fyrra héldum við átta tónleika og fundum að það þétti samfélagið, fólk mætti og skemmti sér saman, sem er frábært.“
Öll uppbygging í sjálfboðavinnu
Húsið er 2800 fermetrar og því ófá handtökin sem hafa verið unnin við endurbyggingu þess sem hefur kostað aðstandendur blóð, svita og tár.
„Það var hvorki vatn né rafmagn á húsinu, rúður voru brotnar, það lak allsstaðar úr þakinu og allt var fullt af fiskvinnslutækjum. Það var ekki fyrr en í fyrra sem við fengum hita á húsið, annars vorum við alltaf bara í kraftgalla að vinna.
Hér hefur heldur aldrei nokkur verið á launum, allt hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, sem er mjög sérstakt. Við erum öll í annarri vinnu og svo hér þess utan alla daga. Það er eins og fólk verður ástfangið af verkefninu og það er það sem þarf að gerast til þess að vinna að því.
Við höfum alltaf upplifað mikla góðvild, en einstaklingar og fyrirtæki stutt okkur og Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur staðið við bakið á okkur varðandi ákveðin verkefni. Einnig höfum við safnað á Karolina Fund, til dæmis fór hljóðverið þannig af stað. Við endurnýtum allt og fólk er mjög duglegt að gefa okkur bæði hluti og efnivið sem við gefum nýjan tilgang.“