Hver peysa einstakt listaverk

Meðal viðburða á LungA nýverið var sýning á peysum eftir listakonuna Tótu Van Helzing, sem lést í desember í fyrra eftir baráttu við krabbamein. Tóta tók miklu ástfóstri við Seyðisfjörð og kom þangað reglulega til að vinna að list sinni og taka þátt í viðburðum.

„Við erum uppaldar í Reykjavík en þegar við vorum litlar ferðuðumst við mikið innanlands. Við eigum síðan ættir bæði á Mjóafjörð og Norðfjörð. Föðurafi okkar er er frá Reykjum í Mjóafirði og móðurafinn frá Hátúni í Neskaupstað. Við eigum því mikið af fólki eystra og sterkar taugar.

Þegar Tóta byrjaði að koma hingað á Seyðisfjörð fann hún að henni leið vel í náttúrufegurðinni. Fjöllin, náttúran og fólkið veittu henni innblástur,“ segir systir hennar, Valgerður (Vala) Einarsdóttir í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Tóta greindist með heilakrabbamein í desember 2020 og lést um ári síðar, aðeins 31 árs að aldri. „Það er sagt að fólk deyi þegar þess tími er kominn en hennar tími var alls ekki kominn frekar en annarra sem eru 31 árs. Hún átti eftir að sýna heiminum list sína, hún átti svo mikið inni,“ bætir Vala við.

Fyrsta kvöld LungA-hátíðarinnar opnaði sýning tengd verkum Tótu í sýningarrými Heima og á föstudeginum var haldin tískusýning í Norðurgötunni.

„Í mínu einkasafni eru rúmlega 30 peysur. Meðan hún lifði var þetta hennar lifibrauð, hún seldi sínar peysur þannig að víða eru til flíkur eftir hana. Ég nota þær á allt annan hátt, fyrir mér er hver peysa listaverk sem ekki er til annað eintak af og eiga skilið rými eins og til dæmis málverk.“

Tóta skapaði sér áberandi stíl og sótti meðal annars í blindraletur því hún hugsaði út í áferðirnar á peysunum. „Hún var prjónahönnuður, valdi sér þann grundvöll til að skapa. Tóta vildi að peysurnar höfðuðu til fleiri en eins skilningarvits og þess vegna eru mismunandi prjón sem skapa áferðir í þeim. Hún var ung þegar hún fann sér sinn stíl sem á engan sinn líkan, peysurnar hennar þekkjast úr kílómetra fjarlægð.

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.