„Í Íslandi fáa allir næmingar heitan mat á middegi“
„Það var öllum miður að þurfa að fara af landi brott og flestir hefðu viljað vera mun lengur meðal nýrra skemmtilegra félaga á Seyðisfirði.“
Svo hljóðaði lokakveðja kennara og nemenda úr Kollafjarðarskúla í Færeyjum til kennara og nemenda í Seyðisfjarðarskóla eftir að þeir færeysku heimsóttu jafnaldra sína heim einn sólarhring fyrr í þessum mánuði.
Þórunn Hrund Óladóttir, skólastjóri Seyðisfjarðarskóla, segir að þetta sé reyndar í annað skipti sem færeysku krakkarnir koma í heimsókn en ástæðan sé einfaldlega sú að einn kennaranna á Seyðisfirði hafi starfað í Kollafjarðarskúla áður en það útskýri þessa stuttu heimsókn með Norrænu. Þar um að ræða Danjál Salberg Adlersson.
„Þetta var skemmtileg heimsókn og almennt mikil ánægja meðal krakkanna að breyta svona til eina dagsstund. Það eru reyndar tvær tengingar í þessu tilfelli því einn gestakennari hjá okkur er danskur og krakkarnir reyndu vissulega að beita fyrir sig dönskunni þó margir hafi líklega gripið í enskuna í tilfellum. Það er skýringin á þessu en þetta er í annað sinn sem þau koma í heimsókn og hver veit nema hér sé að myndast hefð fyrir svona nokkuð. Það væri ekki leiðinlegt.“
Krakkarnir frá Færeyjum létu sem fyrr segir afar vel af skammri dvölinni á Seyðisfirði og eitt og annað kom þeim á óvart eins og kemur til dæmis fram í fyrirsögninni þar sem segir að á Íslandi fái allir nemendur heitan mat í hádeginu.
Það er svo skammt stórra högga á milli í Seyðisfjarðarskóla því nemendur 9. og 10. bekkjar héldu í skólaferðalag til Danmerkur um síðustu helgi en safnað hefur verið fyrir þeirra ferð um tveggja ára skeið. Þar aftur kom sér kannski vel að hafa eytt dagsstund með Færeyingunum upp á tungumálið að gera.
Meðal þess sem krakkarnir gerðu saman á Seyðisfirði var að spila blak en töluvert hefð er fyrir þeirri íþrótt á báðum stöðum. Mynd Seyðisfjarðarskóli