Orkumálinn 2024

Íbúar Seyðisfjarðar valdir Austfirðingar ársins

Íbúar Seyðisfjarðar hafa verið valdir Austfirðingar ársins 2020 af lesendum Austurfréttar. Heiðurinn hljóta þeir fyrir samhug, samheldni og skjót viðbrögð í skriðuföllunum og rýmingu bæjarins í desember.

„Þessi samhugur og samorka hafa sýnt sig í þeim hamförðum sem gengið hafa yfir. Hvert sem maður snýr sér er jákvæðni og hugur í fólki. Það er lítið um bugun og þegar hún kemur upp stíga allir til og aðstoða. Það er gaman að fá klapp og bakið og mér finnst Seyðfirðingar eiga það skilið,“ segir Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Hann var í hópi björgunarsveitarfólks, sjálfboðaliða Rauða krossins og heimastjórnar Seyðisfjarðar sem tóku við viðurkenningunni í Herðubreið í gærkvöldi. Þar hittast Seyðfirðingar og borða saman á fimmtudagskvöldum.

„Við óskuðum eftir tilnefningum frá lesendum og snemma var stungið upp á einstaklingum sem staðið höfðu í eldlínunni hér á Seyðisfirði. Ég var farinn að óttast harða samkeppni og vinslit í stjórnstöðinni þegar þessi ágæta tillaga kom um Seyðfirðinga alla. Það var síðan gott þegar hún varð ofan á.

Málið vandaðist hins vegar við að afhenda verðlaunin, það er erfitt að verðlauna heilt bæjarfélag. Við höfum vanalega gefið Austfirðingi ársins fría áskrift í ár að Austurglugganum. Að þessu sinni ákváðum við að láta andvirði áskriftarinnar renna í söfnun til styrktar Seyðfirðingum. Ég veit að upphæðin er ekki há en hún er táknræn. Að auki afhentum við viðurkenningarskjal sem Seyðfirðingar koma upp á góðum stað,“ sagði Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar/Austurgluggans við athöfnina.

Prófraun fyrir Múlaþing

Davíð benti á að samhugurinn hefði náð langt út fyrir fjallahring Seyðisfjarðar og notaði tækifærið til að þakka aðkomu sveitarfélagsins Múlaþings, en Seyðisfjarðarkaupstaður var eitt fjögurra sveitarfélaga sem mynduðu það.

„Ég held að þetta verkefni hafi verið mikilvægt fyrir sameininguna og reynt á hana. Fá sveitarfélög hafa byrjað á jafn stórum bita en ég held að það geri okkur sterk. Það hefur verið ótrúlega mikið lagt á bæjarfélagið okkar og nágranna en það hefur verið brugðist vel við. Til dæmis við rýminguna voru boðin fleiri gistirými en þurfti og fólk nánast komið með gistingu áður en rýmt var.“

Dansa á regnbogagötunni í sumar

Þótt ró hafi færst yfir hlíðina ofan Seyðisfjarðar undanfarinn mánuð er enn mikið verk framundan á Seyðisfirði. Hreinsunarstarf heldur áfram á fullu næstu vikurnar samhliða gerð varnarmannvirkja og svo er það enduruppbyggingin.

„Ég er svo einfaldur að ég sé bara jákvæðni áfram. Það voru gerólík viðbrögð þegar við rýmdum nú síðast samanborið við fyrst í desember. Það voru allir tilbúnir og fannst þetta sjálfsagt. Mér fannst líka vænt um að það vildu allir vera hér á Seyðisfirði.

Hér er baráttuandi og trú á það sem verið er að gera og ef upplýsingaflæðið verður áfram gott þá hjálpar það til. Við munum dansa á regnbogans stræti í sumar,“ sagði Davíð að lokum.

Þriðja sinn sem titillinn fer á Seyðisfjörð

Austurfrétt hefur valið Austfirðing ársins frá árinu 2012. Þetta er í þriðja skipti sem nafnbótin fer á Seyðisfjörð og annað skiptið í röð.
Eftirtalin hafa áður verið valdir Austfirðingar ársins á Austurfrétt:

2019: Jóhann B. Sveinbjörnsson
2018: Steinar Gunnarsson
2017: Ólafur Hr. Sigurðsson
2016: Þórunn Ólafsdóttir
2015: Tara Ösp Tjörvadóttir
2014: Tinna Rut Guðmundsdóttir
2013: Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson
2012: Árni Þorsteinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.