Þingmaður skelkaður eftir flugferð
Einn þingmanna kjördæmisins hélt hann væri að upplifa sitt síðasta þegar flugvél Flugfélags Íslands lenti í ókyrrð á leið sinni frá Reykjavík til Egilsstaða í kvöld. Flugmenn vélarinnar segja að ekki hafi verið um „alvöru ókyrrð“ að ræða.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýbakaður þingmaður Samfylkingarinnar, var meðal farþega í vélinni. Á Facebook síðu sinni segir hún frá því að hún hafi í alvöru haldið „að lífinu væri að ljúka. Það gerðist eiginlega tvennt í einu - aukavélahljóð og skruðningar - hélt að vélin væri að bila og svo þessi rosalegi hristingur og dýfur - er ekki flughrædd - en fannst þetta verulega slæmt!!!“ skrifar Jónína.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, hafði það eftir flugstjóra vélarinnar að ekki hefði um óvenjumikla ókyrrð að ræða eða „alvöru ókyrrð“ eins og hann komst að orði. Ókyrrðin hefði ekki komist upp á „moderate“ stig sem er eins konar miðstig í mælingum flugmanna. Áætlað er að vindhraðinn í loftinu hafi verið um 15 m/sek. Einum farþega mun hafa verið nokkuð brugðið en almennt voru farþegarnir rólegir, að sögn Árna.