Innan um vingjarnlegar endur og hrekkjótta þurrkara á tjaldsvæðunum
CampEast keypti í byrjun sumars fjögur tjaldsvæði af Fjarðabyggð. Umsjónarmennirnir bjuggu á sunnanverðu Indlandi þegar þeir fóru í atvinnuviðtalið en þeir slógu til og fóru í allt annað umhverfi.Það eru Jón Magnús, Halla og Hrafnhildur Eyþórsbörn úr Fossárdal í Berufirði sem standa að baki CampEast. Þau keyptu í vor tjaldsvæðin á Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði af Fjarðabyggð. Þá tók CampEast við rekstri tjaldsvæðanna á Eskifirði og Norðfirði.
Þau hafa í áraraðir byggt upp tjaldsvæðið í Fossárdal og leituðu því eftir starfsfólki til að sjá um tjaldsvæðin í Fjarðabyggð. Til þess réðust hin austurríska Dora og bandaríski Dylan sem bjuggu saman í Indlandi. Þau tala samanlagt fimm tungumál og það hjálpaði þegar kom að atvinnuviðtalinu.
Hópurinn réðist í viðhald á tjaldsvæðunum, meðal annars með að lesa umsagnir gesta á netinu og kanna hvar þeir teldu helst úrbóta þörf. Sú breyting sem skipti ferðamenn sem þurfa eldunaraðstöðu mestu mál var stækkun eldhússins á Reyðarfirði. Áður voru þurrkarinn og þvottavélin einnig í eldhúsinu, en þau tæki fengu sitt eigið rými þannig að eldhúsið stækkaði og til varð pláss fyrir langt borð og nokkra stóla.
Dora og Dylan gerðu út frá Reyðarfirði í sumar, komu sér þar fyrir í góðu hjólhýsi á tjaldsvæðinu og eignuðust nágranna sem urðu þeim kærir – nefnilega endurnar á Andapollinum.
Dylan var á ferðinni flesta dagana, fyrst fór hann til suður en til norðurs eftir hádegið. Dora sá um Reyðarfjörð. Þar voru bæði flestir gestir og mest verkefni. Ítrekað komu upp undarlegar aðstæður í kringum þurrkarann, til dæmis hjá gestunum sem vildu þurrka skóna sína í honum og voru svo hissa þegar það gekk ekki jafn vel og með fötin.
Nýju fólki fylgja alltaf nýjar hugmyndir. Þær eru í mótun hjá CampEast sem segjast vilja gera hvert tjaldsvæði einstakt og laga þau að þörfum ferðafólks. Þau þurfi að vera aðlaðandi og þannig úr gerði gerð að fólki líði þar vel, jafnvel þótt ferðast sé um með tjald.
Campeast1: Dora og Dylan á Reyðarfirði. Mynd: Barbara Grilz
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.