Skip to main content

Írskur listamaður sem hlakkar til að kynnast íslenska myrkrinu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. nóv 2021 10:07Uppfært 19. nóv 2021 10:26

Írski listamaðurinn Rebecca Deegan dvelur um þessar mundir í listamannaíbúð Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði. Deegan tók stefnuna á Ísland í Covid-faraldrinum til að kynnast alvöru einangrun.


„Kvöld eitt, þegar samkomutakmarkanirnar voru hvað harðastar, fór ég í sýndarævintýri á Google Maps. Ég smellti á Ísland og týndi mér í fegurð og umfangi landslagsins.

Ísland hefur alltaf heillað mig, en þetta var á tímum þar sem við máttum ekki fara lengra en tvo kílómetra að heiman. Það gerði í útslagið, ég þráði hina sönnu einangrun, myrkrið og töfrana sem Ísland býr yfir,“ er haft eftir Rebeccu í staðarblaðinu Laois Nationalist.

Hún fór strax að leita að listamannaíbúðum og datt fljótlega niður á Sköpunarmiðstöðina sem, auk þess að hafa allt það helsta sem listamann gæti vantað, hafði einnig hundinn Tuma sem Rebecca heillaðist strax af.

Rebecca kveðst hafa sérstakan áhuga á þjóðsögum og hvernig þær varðveitist milli kynslóða. Hún hyggst kynna sér þær íslensku, meðal annars með að ræða við Stöðfirðinga og nota þær sem innblástur í málverk sín.

Rebecca átti upphaflega að koma í mars en vegna ferðatakmarkana frestaðist dvöl hennar þar til nú í nóvember. Afraksturinn af dvölinni verður síðan sýndur á sýningu í Laois á nýju ári.