Íslenska náttúran hefur stundum hjálpað mér aftur á rétta slóð í lífinu
Bretinn Trevor Allen hefur tekið þátt í gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð öll árin nema það fyrsta (2008) og Covid-árið 2020. Hann segir gönguleiðirnar alltaf breyta um svip en þess utan búi Ísland alltaf yfir sama aðdráttaraflinu og einstakri náttúrufegurð.Trevor segist lengi hafa verið hugfanginn af Íslandi. Hann hafi hins vegar ekki látið verða að því að koma fyrr en árið 2008, skömmu eftir að eiginkona hans lést eftir veikindi.
Hann kom ekki austur þá en var heillaður af því sem hann sá og vildi koma aftur. Það gerði hann strax um sumarið, bókaði ásamt vinum ferð í gegnum ferðaskrifstofuna High Places sem Ný-Sjálendingurinn Andy Dennis rak. Hann hélt til á Eskifirði mörg sumur og eignaðist vini eystra, líkt og Trevor.
Trevor segist hafa haft samband við Andy ári síðar og spurt hann út í hvaða stöðum á Íslandi hann gæti mælt með fyrir sig. Andy spurði til baka hvort hann vildi ekki koma í gönguvikuna í Fjarðabyggð. Trevor kveðst strax hafa fundið sig í austfirsku fjöllunum.
„Þetta voru frábærar göngur og ég kynntist fólkinu vel, sérstaklega því sem gekk með mér á fjöllin fimm. Það myndast félagsskapur og við vinnum saman að því að komast á toppinn. Síðan er eitthvað í loftinu sem gerir þetta skemmtilegt. Það er gaman að heyra fólkið tala íslensku og síðan eru litlir hlutir eins og að vaða yfir læki. Þetta snýst ekki bara um að setja einn fótinn fram fyrir annan.“
Þolraun eftir Covid
Trevor segir hverja gönguviku hafa sín sérkenni. Þannig sé gott að skipulagðar séu göngur á mismunandi fjöll milli ára.
„Eftir fyrstu skiptin fór ég að taka vini mína, mikið göngufólk, með mér. Það var öðruvísi en að koma hingað einn og við gátum leigt okkur bíl til að keyra um landið. Snjórinn hefur aldrei verið jafn lítill og núna. Það skapaði engin vandræði en ég bað samt búinn að biðja um snjó fyrir næsta ár. Nýir ferðafélagar og veðrið gera göngurnar ólíkar og ævintýralegar.
Ég fékk Covid síðasta vetur. Þótt pestin hafi gengið yfir á nokkrum dögum þá sat lengi í mér þreyta. Ég var því ekki í jafn góðu formi og vanalega þegar ég kom hingað nú en ég er ánægður með að hafa komist í gegnum vikuna. Það var líka hughreystandi að heyra frá fólki sem gengið hafði í gegnum það sama.“
Fallbeygingarnar flækja íslenskuna
Þótt Trevor sé fastagestur í gönguvikunni þá hefur hann líka komið til Íslands á fleiri tímum og þróað með sér mikinn áhuga á menningunni.
„Eitt sumarið kom ég til landsins með fjölskyldunni. Ég hef líka farið á skíði í Oddsskarði. Ég hef keypt mér íslenskar bækur og kvikmyndir. Ég hef lesið Íslendingasögur og held mikið upp á Laxness. Setning hans í Kristnihaldi undir jökli um að lóan sé illgjörn hefur ollið mér miklum heilabrotum.
Ég hef reynt að læra á íslensku. Ég lærði dönsku á sínum tíma af tungumálanámskeiði á geisladiski sem ég spilaði í bílnum á leiðinni í vinnuna. Ég gat orðið lesið Tinna á dönsku,“ segir Trevor og bætir svo við á dönsku: „Það er ekki svo erfitt að læra dönsku en gjörsamlega ómögulegt að tala hana.“ Í hans augum eru skrifuð og töluð danska tvö ólík mál.
Íslenskan hefur það fram yfir að vera skrifuð eins og hún er borin fram en svo vandast málið. „Málfræðin er erfið. Sumir hafa sagt íslensku vera þýsku á sterum. Íslensku orðin fallbeygjast og þar með breytast sem gerir mjög erfitt að hlusta eftir þeim. Ég hef reynt að læra íslenskuna af bók en ekki haft nægan tíma til að einbeita mér að henni nema þann tíma í Covid-faraldrinum sem ég minnkaði við mig vinnu. Þá náði ég ágætum framförum.“
Heilandi að vera í íslensku náttúrunni
En fyrst og síðast er það íslenska náttúran sem heillar Trevor, svo mjög að hann tárast. „Það eru töfrar í henni. Í fyrstu heimsókninni minni varði ég heilu síðdegi í að ganga um hraunbreiðu út á Snæfellsnesi. Ég man ég sá eitthvað undan mér sem líktist manneskju en þá var það bara klettur.
Ég hef eins og annað fólk gengið í gegnum erfiða tíma á lífsleiðinni. Að koma hingað hefur nokkrum sinnum gert gæfumuninn í að hjálpa mér til að komast aftur á rétta braut.
Það eru töfrar í náttúrunni. Landið er vingjarnlegt, eins konar helgidómur. Fegurðin öðruvísi en annars staðar en hún er allt í kring, til dæmis þegar maður situr í heita pottinum úti á Mjóeyri og horfir uppeftir fallegasta fjalli landsins, Hólmatindinum. Þessi endalausu hraunlög og mótun jöklanna er einstök. Landið er svo ungt en síðan er gróðurfarið líka sérstakt.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.