Íslenskt popp og rokk til styrktar geðheilbrigðismálum

Það líkast til eins og að leita að nál í heystakki að finna Íslending sem ekki fer ósjálfrátt að hreyfa útlimina ótt og títt þegar klassísk popp- og rokklög frá mörgum helstu tónlistarmönnum landsins fara að hljóma í góðum salarkynnum. Ekki sakar heldur þegar aðgangseyririnn rennur óskiptur til geðheilbrigðismála

Það er nákvæmlega það sem Tónleikafélag Austurlands býður upp á í Egilsbúð í Neskaupstað annað kvöld og í Valaskjálf á Egilsstöðum laugardagskvöld en þar um ræða hina árlegu styrktartónleika félagsins en allur ágóði hefur ávallt runnið óskiptur til geðheilbrigðismála á Austurlandi. Aðspurður segir Bjarni Haraldsson, forsprakki félagsins, að frá upphafi hafi um 34 milljónir króna alls safnast til þeirra mikilvægu mála.

„Þetta árið er þemað okkar íslenskt popp og rokk og ég get sagt þér að þegar ég og tónlistarmennirnir fórum að grúska í hvaða lög ættu að vera á dagskránni þá varð okkur varla um sel. Það er til svo mikið af perlum í íslenska popp- og rokksafninu að það tók okkur mjög langan tíma að koma dagskránni saman. Fyrir vikið vona ég að allir gestir hafi gaman af og njóti tónleikanna.“

Fyrir utan nýtt þema er einnig nýtt nú að sérstakir gestir að hita upp fyrir aðalbandið sem hlotið hefur nafnið Óvissa en jafnframt stíga á stokk þeir Dagur Sig og Stebbi Jak.

„Í Egilsbúð verður það hljómsveitin Chutma. Þeir opna tónleikana og flytja frumsamin lög auk þess að taka tvö til þrjú lög af popp- og rokk prógramminu okkar. Í kjölfarið kemur svo Óvissa fram og skemmtilegt frá að segja að nafnið á bandinu er tilkomið sökum þess að hljómborðsleikari hljómsveitarinnar er Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri HS Orku. Í kjölfar atburðanna á suðvesturhorninu var lengi vel ekki ljóst hvort hann gæti mætt en svo fékk hann loks sérstakt leyfi frá forstjóranum til að koma og spila og það blessaðist allt. Ekki síðri aðili hitar upp á Egilsstöðum því það er sjálf Ína Berglind úr Fellabænum og þá ætlar Tónlistarklúbbur Menntaskólans á Egilsstöðum einnig að flytja nokkur lög. Á báðum tónleikunum ætlar hún Sóley Þrastardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum að heiðra okkur líka.“

Báðir tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21 báða dagana en kaupa má miða bæði á Tix.is og í anddyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.