Jöklar og saga, stjörnur og rómantík
Haustþing Þórbergsseturs verður að þessu sinni haldið laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. október. Á þinginu verður blandað saman fræðslu, skemmtun og útiveru og komið víða við.
Þingið hefst kl 13:00 á fyrirlestri Helga Björnssonar jöklafræðings ,,Frá Breiðumörk til jökulsands, mótun lands í þúsund ár” og síðan verður farið í ferðalag um Breiðamerkursand og inn í Þröng, þar sem glögglega sést hversu hratt Breiðamerkurjökull hefur hopað á síðustu árum og áratugum. Dætur Einars ríka í Vestmannaeyjum verða síðan með skemmtilega dagskrá í máli og myndum tengda samskiptum Þórbergs og Einars ríka föður þeirra. Og til að ætla vísindunum veglegan sess á þessu málþingi þá mun Snævarr Guðmundsson fjalla um stjörnur og óravíddir himingeimsins, og hvort sem sjást einhverjar stjörnur á himninum eða ekki á að æfa sig í myrkragöngu og fara upp á Helghól undir miðnætti. Á sunnudeginum ætlar Halldóra Gunnarsdóttir mannfræðingur að vera með erindi um Þórberg og ástina. Einnig verður ungur íslenskunemi með erindi tengt BA ritgerð sinni sem fjallar um Þórberg og rómantíkina. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir er að skrá bréfasafn Þórbergs í Landsbókasafninu og segir skemmtilegar fréttir tengdar því, en síðan verða heimamenn með erindi eftir hádegi. Líkur eru á að meinlaust grín blandast dagskráinni eins og gjarnan þegar fjallað er um Þórberg og verk hans
Allir eru velkomnir að sitja málþingið allt eða hluta þess.
Dagskrá
Laugardagur 17. október
13:00 Setning
13:10 ,,Frá Breiðumörk til jökulsands, mótun lands í þúsund ár” Helgi Björnsson jöklafræðingur
14:00 Ferð að Breiðamerkurjökli ( Hægt að aka á eigin bíl langleiðina)
16:30 Dagskrá tengd samskiptum Þórbergs Þórðarsonar og Einars ríka ,,Þú hefðir ekki átt að bæta við
þig nýjum bátum á meðan þú stóðst í ævisögurituninni.“ dætur Einars ríka, Auður Einarsdóttir
íslenskufræðingur og Sólveig Einarsdóttir framhaldsskólakennari
19:30 Kvöldverður að hætti Þórbergsseturs, Halaafurðir á borðum
21:00 Stjörnur; Snævarr Guðmundsson
22:00 Stjörnuskoðun á Helghól, myrkraganga
Sunnudagur 18. október
10:00 „Að elska er að yrkja fegursta ljóð í víðri veröld.“ Þórbergur og ástin. Halldóra Gunnarsdóttir
mann- og kynjafræðingur
10.40 Þórbergur og rómantíkin; Arngrímur Vidalín Stefánsson BA íslenskunemi Háskóla Íslands
11:20 ,,Þjer eruð aumingi - að skrifa mjer aldrei." Úr bréfum til Þórbergs.
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur
12:00 Hádegisverður, kjötsúpa og rúgbrauð með kæfu
13:00 ,,Að afbyggja karlmann:” Um sjálfsmyndir Þórbergs Þórðarsonar.
Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur
13:30 Söguslóð á Suðausturlandi, kynning frá Þórbergssetri
14:00 Þingslit