Þjóðleg tónlistarstund á Skriðuklaustri á sumardaginn fyrsta

Í dag, sumardaginn fyrsta, verða Marta Guðrún Halldórsdóttir sópran og Örn Magnússon píanóleikari með þjóðlega tónlistarstund á Skriðuklaustri kl. 15.00.

fila.jpg

 

 

Örn og Marta hafa starfað saman um margra ára skeið. Þau hafa lagt rækt við íslenska tónlist, bæði nýja og gamla og þá ekki síst fengist við þjóðlög í ýmsum búningi. Þau hafa gefið út geisladisk með þjóðlagasafni Engel Lund og nú eru væntanlegir tveir nýir þjóðlagadiskar, annar með útsetningum Hildigunnar Rúnarsdóttur en hinn geymir lög sem þau hafa útsett sjálf og flutt með fjölskylduhljómsveit sem ber heitið Spilmenn Ríkínís. Þar nota þau gömul íslensk hljóðfæri sem vitað er að til voru hér á landi til forna s.s. langspil, simfón og gígju. Á tónleikunum á sumardaginn fyrsta munu þau gefa áheyrendum sýnishorn af hvoru tveggja og flytja tónlist úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, úr safni Engel Lund og tónlist sem varðveitt er í tónlistarhandritunum Melodiu og Hymnodiu við undirleik hinna ýmsustu hljóðfæra, allt frá píanói til gemsuhorns.

 

Tónleikarnir eru í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarmanna og hluti af landsbyggðartónleikum 2009. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir fullorðna en frítt fyrir 16 ára og yngri.

 

Opið er á Skriðuklaustri kl. 14-17 á sumardaginn fyrsta og einnig laugard. og sunnud. 25-26. apríl. Frá og með 1. maí verður svo opið daglega, til að byrja með frá kl. 12-17. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.