John Grant, Ásgeir Trausti, Bjartmar og Mannakorn á Bræðslunni
Bandaríski tónlistarmaðurinn og Íslandsvinurinn John Grant verður aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði eystri í sumar. Bjartmar Guðlaugsson, Ásgeir Trausti og Mannakorn fullkomna dagskrána.
Þetta var tilkynnt í beinni útsendingu í Popplandi Rásar 2 í dag. Grant vakti heimsathygli árið 2010 með plötu sinni Queen of Denmark. Í mars gaf hann svo út nýja plötu, Pale Green Ghost, sem tekin er upp hérlendis.
Grant er farinn í heimsreisu til að fylgja plötunni eftir með íslenskum tónlistarmönnum. Þeirra á meðal er austfirski trommuleikarinn Kristinn Snær Agnarsson. Bandið ætlar hins vegar að gefa sér tíma til að koma heim í lok júlí til að spila á Bræðslunni.
Frægðarsól Ásgeirs Trausta hefur risið hratt síðan hann gaf út plötuna Dýrð í dauðaþögn síðasta haust. Í viðtali nýverið sagði hann hafa komið sér á óvart, þegar hann hefði lagt af stað í útgáfuna hefði hann sætt sig við að selja hundrað eintök heima á Hvammstanga.
Ásgeir Trausti kom fram á Bræðslunni í fyrra, þá með hljómsveitinni Lovely Lion, þar sem hann spilaði á gítar.
Bjartmar Guðlaugsson fagnaði í fyrra sextíu ára afmæli sínu með tónleikum og safnplötunni Sumarliði, hippinn og allir hinir. Pálmi Gunnarsson og Magnús Eiríksson eru burðarásirnar í Mannakorni. Níunda plata sveitarinnar með frumsömdum lögum, Í blómabrekkunni, kom út í fyrra.
Hefð er fyrir að efnilegar hljómsveitir komi fram á Bræðslunni. Eftir er að staðfesta slíkar sveitir. Þá hefur enn ekkert verið gefið út um hliðardagskrá hátíðarinnar dagana á undan.
Þetta er í níunda sinn sem Bræðslan er haldin. Aðalkvöld hátíðarinnar að þessu sinni verður 27. júlí. Miðasala hefst 9. maí.