Jólafjör á Finnsstöðum nánast allan desember

Prufukeyrsla á jólaballi og jólaskemmtun almennt í desember í fyrra að Finnsstöðum í Eiðaþinghá tókst svo vel að nú ætlar fjölskyldan að bæta um betur og bjóða upp á hitt og þetta jólalegt, notalegt og skemmtilegt allar helgar fram að aðfangadegi.

Fjölskyldan á Finnsstöðum hefur um hríð sinnt ferðaþjónustu auk þess að bjóða upp á lítinn dýragarð auk þess að reka hestaleigu. Í fyrra vildi fjölskyldan reyna að gera eitthvað sérstaklega fyrir nærsveitarfólk í dimmum desembermánuði og blésu þá meðal annars í jólaball í hlöðunni. Það segir Helga Guðrún Sturlaugsdóttir hafa tekist svo vel að nú skal gera enn betur.

„Við vorum svona að prófa okkur áfram í fyrra en þá bar svo við að á jólaballið okkar þá komu um tvö hundruð manns og skemmtu sér með okkur yfir tónlist, kakói og jólasveinninn tók líka þátt. Það ætlar hann líka að gera nú á laugardaginn kemur þegar jólaballið fer fram á milli klukkan 15 og 17:30. Þar gerum við okkur glaða stund saman og við búin að fá hljómsveit til að spila jólalögin auk þess sem kakó, kaffi og smákökur verða í boði. Svo ætlum við að grilla sykurpúða og hver veit nema það finnist einhverjir álfar hér úti í skógi. Smíðaverkstæðið okkar opið og við leyfum fólki auðvitað að hoppa á hestbak og skoða dýrin svo fátt sé nefnt. Allir ættu að geta notið stundarinnar með einhverjum hætti.“

Miða á þennan ágæta viðburð má kaupa á Tix.is en sérstakri forsölu lýkur annað kvöld og miðar á lægra verði fram að þeim tíma. Sjálf gerir Helga Guðrún sér vonir um húsfylli sem miðað við síðasta ár er kringum 200 manns eða svo.

„Við útilokum ekki að skella upp öðru jólaballi ef aðsóknin verður þannig en við ætlum líka að halda jólastemmningunni úti 9. og 16. desember sem allir eru velkomnir að kíkja á með okkur. Svo langar okkur mikið að sjá nærsveitarmenn með áhuga á hestamennsku alla sunnudaga í desember þar sem við bjóðum fólki að taka túra með okkur. Þetta fyrst og fremst fyrir fólk hér í kring sem hefur áhuga en hefur ekki hesta sjálft og við stillum verðinu mjög í hóf með tilliti til þess. Það væri gaman að sjá sem flesta þá daga líka.“

Þrátt fyrir litla kynningu var húsfyllir á fyrsta jólaballinu að Finnsstöðum í fyrra enda fátt notalegra en jólalög og heitt kakó undir desemberhimni. Mynd Finnsstaðir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.