Jólalegar veitingar hjá Austfirskum strax í byrjun október

Á mánudagskvöldið var hittist félagsskapur í Reykjavík sem æði lítið fer fyrir þrátt fyrir að hafa starfað samfleytt um 80 ára skeið eða svo. Þar reyndist um að vera einn fjölmennasta fund þessa félags um langa hríð en hópurinn sem hér um ræðir er Félag austfirskra kvenna í Reykjavík.

Það fer kannski helst til lítið fyrir þeim félagsskap að sögn formanns félagsins en sín á milli kalla þær sig bara Austfirskar og það einmitt heitið á vefsíðu félagsins. Formaður stjórnar, Oddný Vala Kjartansdóttir, segir hópinn samanstanda af austfirskum konum sem flutt hafi suður á höfuðborgarsvæðið í áranna rás. Þær hittist reglulega og reyni að hafa ofan af hver fyrir annarri og þá gjarnan með sögum og spjalli um heimahagana austur á landi enda sé alltaf ríkur söknuður eftir þeim landshluta.

„Þessi októberfundur okkar í vikunni gekk svo vel að það varð að gjöra svo vel að bæta við fullt af borðum og stólum í salnum því mætingin var mun betri en venjulega. Tilefnið var nú reyndar sérstakt líka því við hittumst þarna að beiðni Alberts Eiríkssonar en hann vinnur að stórri grein fyrir jólatímarit Húsfreyjunnar. Hann leitaði til okkar og vildi fá okkur til að útbúa jólalegar austfirskar veitingar frá hinum ýmsu mismunandi stöðum á Austurlandi.  Það þurfti vart að segja það tvisvar og hér var svignuðu borðin undan minnst sautján tertum og ýmsu meira góðgæti og Albert fékk meira en nóg af efni.“

Oddný segir ótrúlega gaman hve góðar undirtektirnar voru en hópurinn samanstóð af konum með uppruna frá Breiðdalsvík og Djúpavogi og þaðan upp alla ströndina að Seyðisfirði. Helst hafi vantað konur af Héraði að þessu sinni.

„Það hefur vissulega lítið farið fyrir okkur þó okkur sé að fjölga hægt og bítandi og gjarnan viljum við fá fleiri konur til liðs við okkur. Það er ekki aðeins verið að hittast einu sinni í mánuði heldur reynum við að gera okkur dagamun í hvert sinn og fáum gjarnan austfirskt listafólk til að skemmta okkur og við reynum að heiðra reglulega þær konur sem verið hafa með okkur sem lengst. Ein okkar er að verða 100 ára í desember og hún mætti galvösk á fundinn á mánudaginn. Allar austfirskar konur afar velkomnar með okkur.

Frá „jólafundinum“ á mánudagskvöld. Salurinn þéttsetinn sem sjaldan fyrr og mikið hlegið og haft gaman. Mynd Austfirskar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar