Jólasíld á ýmsa vegu

Margir eru fastheldnir á matarhefðir í kringum jól og ekki er óalgengt að síld sé höfð á borðum á þeim tíma, gjarnan marineruð í kryddlegi eða í kaldri mæjónessósu. Smurbrauðsjómfrúin Tinna Rut Ólafsdóttir á Norðfirði hefur sérstakt dálæti á síld og segir að þjóðin ætti að vera miklu duglegri að leika sér með hana sem hráefni.


„Ég finn engar skriflegar heimildir um af hverju síldin er gjarnan borðuð á jólum en sú líklegasta er veiðitímabil hennar, auk þess að hér áður fyrr var hún oft söltuð á sjó eða strax við löndun og var þá klár til átu í kringum jólatíðina. Þetta er flottur fiskur sem við Íslendingar veiðum hvað mest af í heiminum og að mínu mati er hún alltof lítið snædd af okkur og í raun vanmetið hráefni,“ segir Tinna, en hún kynntist síldinni fyrst þegar hún var við nám í Danmörku, þar sem hún er gjarnan nýtt fersk, en ekki marineruð eins og hérlendis.

Vill sjá betri nýtingu á íslenskum afurðum
„Við Íslendingar veiðum einna mest af síld í heiminum en þrátt fyrir það er nánast ómögulegt í dag fyrir okkur að nálgast hana saltaða eða ferska í fiskbúðum og almennum verslunum. Mig langar að gráta þegar ég panta fimm lítra fötu af marineraðri síld frá íslenskum matvælabyrgjum og ég fæ senda danska síld; þ.e.a.s. íslenska síld sem send hefur verið til Danmerkur þar sem hún er unnin og send aftur til Íslands þar sem hún fer í sölu. Við hljótum að geta staðið okkur betur í nýtingu á íslenskum afurðum og unnið þær hér heima,“ segir Tinna.

Hægt að útbúa alls konar rétti úr síldinni
Tinna segir að fersk síld sé líklega eitthvað sem fólk þarf að smakka nokkrum sinnum áður en það kann að meta hana.

„Það frábæra við síldina er að það er hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr henni. Það eru svo mörg hráefni og krydd sem passa vel með síldinni og þar af leiðandi hægt að leika sér með samsetningu. Sem dæmi um hráefni sem passa vel með síldinni má nefna:

Ferskt: allar tegundir af lauk, fennel, sellerí, rauðrófur, piparrót, engifer, epli, appelsínur, sítrónur, lime, paprika, dill, chili, kartöflur, kapers, steinselja, kóríander, mynta og sítrónumelissa.

Þurrkað: piparkorn, allrahanda, anís, lárviðarlauf, dill og dillfræ, fennel og fennelfræ, sinnepskorn, kúmen, negull, karrý, túrmerik, chili og paprika.

Majónes, sýrður rjómi, grísk jógúrt, þeyttur rjómi (ef borða á samdægurs), sinnep (dijon; fínt og grófkorna) eða rauðrófusafi.


Ediklögur Smurbrauðsjómfrúarinnar

  • 1 l kryddedik eða annað gott edik
  • ½ l vatn
  • ½ kg sykur
  • Laukur, stilkar af kryddjurtum, piparkorn, lárviðarlauf o.s.frv. eftir smekk)

Edik og vatn er sett í pott og hitað að suðu, þá er sykrinum bætt út í og hrært í af og til þar til hann hefur samlagast. Magn af sykri og vatni má aðlaga eftir smekk hvers og eins. Þá er potturinn tekinn af hellunni og lögurinn látinn kólna. Köldum leginum er svo hellt yfir síldina (marineraða eða kryddaða, útvatnaða saltsíld eða steikta síld).

Ediklöginn má krydda eftir smekk. Ég set alltaf lauka, stilka af kryddjurtum og piparkorn með þegar ég sýð upp grunnlöginn. Hann geymist vel og getur svo verið kryddaður frekar eftir hvað á að nota hann í. Þessi lögur er ekki bara tilvalinn fyrir síldina heldur er hann einnig mjög góður fyrir súrar gúrkur, rauðbeður og rauðkál o.s.frv.


Appelsínu og engifersíld Smurbrauðsjómfrúarinnar (fyrir 4-6)

  • 500 g marineruð síld (lögur sigtaður frá) eða 500 g útvötnuð saltsíld
  • 3 dl af ediklegi
  • Börkur af einni lífrænni appelsínu
  • 2 dl appelsínusafi
  • 40 g rifið engifer
  • 5 stk stjörnuanís
  • 20 korn rósapipar
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 laukur skorinn í þunna hringi (hvítur eða rauðlaukur, gjarnan bæði)

Ediklögur, appelsínusafi, börkur, engifer, anís, rósapipar og lárviðarlauf sett í pott og suða látin koma upp, sett til hliðar og látið kólna. Raðið síldarbitum og lauk til skiptis í krukku og hellið köldum leginum yfir. Látið standa í kæli í að minnsta kosti sólarhring áður en síldin er snædd, en hún geymist í eina til tvær vikur í kæli.

Gott að bera fram með góðu rúgbrauði og smjöri, jafnvel með soðnum eggjum eða kartöflum, fersku dilli og kryddjurtadressingu.


Rauðrófu og piparrótarsíld Smurbrauðsjómfrúarinnar (fyrir 4-6)

  • 500 g marineruð síld (lögur sigtaður frá) eða 500 g útvötnuð saltsíld
  • 5 dl ediklögur
  • 1 dl rauðrófusafi (má vera af niðursoðnum rauðrófum)
  • 20-40 gr rifin piparrót (piparrótin er missterk og þarf að fara eftir smekk)

Öllu blandað saman og hellt yfir síldina sem er látin liggja í leginum í sólarhring. Við það verður hún fallega rauðbleik á litinn og dregur í sig bragð af piparrótinni og rauðrófunum. Síldina má bera fram á þessu stigi eða vinna áfram með hana og setja í dressingu.

Rauðrófu- og piparrótardressing Smurbrauðsjómfrúarinnar

  • ½ dós majónes
  • ½ dós sýrður rjómi
  • 200 g rauðrófur (sigtaðar og þerraðar)
  • 1 grænt epli
  • ½ laukur smátt saxaður (má vera vorlaukur eða rauðlaukur)
  • 15 g rifin piparrót
  • 15 g söxuð steinselja
  • ½ tsk dijon sinnep
  • 2 tsk sítrónusafi
  • Salt og pipar

Majónesi og sýrðum rjómi hrært saman. Rauðrófur og epli skorin í litla bita og sett saman við majónesblönduna ásamt restinni af innihaldsefnum. Ef þú ert ekki vanur/vön að vinna með piparrót þá er gott að byrja smátt, leyfa dressingunni að taka sig í smá stund og smakka þig fram í það magn sem hentar. Síldinni er bæði hægt að blanda í dressinguna eða bera fram með henni.

Bæði er hægt að nota rauðrófu- og piparrótarsíldina úr uppskriftinum að ofan en einnig marineraða síld eða kryddsíld. Munið bara að sigta og þerra síldina vel svo að dressingin verði ekki of þunn.

Sinneps- og karrýsíld Smurbrauðsjómfrúarinnar (fyrir 4-6)

  • ½ dós majónes
  • ½ dós sýrður rjómi
  • 2 tsk dijon sinnep
  • 2 tsk grófkorna dijon sinnep
  • 1 ½ tsk karrý
  • ½ tsk túrmerik (gefur fallegan gulan lit)
  • Smá sítrónusafi
  • Salt og pipar

Allt ofantalið er hrært saman og smakkað til með salti og pipar. Dressinguna er hægt að nota eina sér eða með síld af öllu tagi. Einnig er hægt að útbúa síldarsalat.

Síldarsalat

  • 500 g marineruð síld (lögur sigtaður frá) eða 500 g útvötnuð saltsíld sem legið hefur í heimalagaða edikleginum í a.m.k. sólarhring. Sigtið og þerrið.
  • 5 ananashringir skornir í litla bita
  • 1 grænt epli skorið í litla bita
  • ½ rauðlaukur sakaður smátt
  • 2 msk kapers sigtað
  • 20 gr saxaðar kryddjurtir (dill og steinselja)

Allt hrært varlega saman og neytt, gjarnan með góðu rúgbrauði, fullt af smjöri og soðnum eggjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar