Jólasýning Sláturhússins um helgina
Þétt dagskrá verður í boði alla helgina í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum en á morgun opnar þar jólasýning miðstöðvarinnar.
Jólasýningin er sölusýning á hinum fjölbreyttustu verkum sem öll eru eftir austfirska listamenn og vekur hugsanlega gjafahugmyndir hjá gestum sem styðja vilja við listamenn fjórðungsins. Verkin af ýmsum toga; olíumálverk, grafíkverk, ljósmyndir og keramik svo fátt sé nefnt.
Jólasýningin opnar formlega klukkan 13 á morgun laugardag og verður opin fram til 20. desember.
Það þó fjarri því það eina í Slátuhúsinu þessa helgina sem heillað gæti almenning. Þar stígur einnig á stokk á sunnudagskvöld klukkan 20 rithöfundurinn Hallgrímur Helgason með sýningu sína 60 kíló af hamingju en sú hefur farið sigurför að undanförnu. Þar um að ræða kvölddagskrá sem unnin er upp úr Sextíu kíló bókaflokki Hallgríms en sýningin hans er blanda af upplestri, uppistandi og sögustund.