![](/images/stories/news/folk/gudny_drifa_skeggjastodum.jpg)
Júlífílingur í rafmagnsleysinu: Henda kjötinu á grillið
„Við erum að reyna að plana kvöldið, púsla mat og svoleiðis. Það er aðeins farið að kólna í húsinu en ef ekki verður þeim mun kaldara verðum við bara heima, vel klædd og hendum kjötinu á grillið,“ segir Guðný Drífa Snæland, á Skeggjastöðum í Fellum.
Rafmagn fór þar af á fjórða tímanum í nótt og ljóst er að það kemst ekki á aftur fyrr en seint í kvöld í fyrsta lagi.
Það sem af er degi hefur fjölskyldu hennar borist fjöldi heimboða. „Skilaboðunum hefur rignt inn um að við getum komið í jólabað, því hér er ekkert heitt vatn, kaffi, verið með í kvöld og gist í nótt eða um autt húsnæði á Egilsstöðum.
Hinn sanni jólaandi er greinilega til staðar en það er ekki hlaupið að því að fara því við þurfum að sinna skepnum hér.“
Guðný Drífa býr á Skeggjastöðum þar ásamt manni sínum Einari Erni Guðsteinssyni og börnum þeirra 7 og 9 ára. Hún segir rafmagnsleysið leggjast verst í börnin. „Við stungum upp á að fresta jólunum en þau voru ekki til í það.
Pakkarnir verða því opnaðir við ennis- og kertasljós. Þetta verður svona júlífílingur um jól með kjöti ðá grillinu. Við verðum heldur ekki í sparifötunum heldur líkari jólasveinunum í Dimmuborgum í ullarsíðbrók og lopapeysu.“