Kammerkór Egilsstaðakirkju leitar í flúr og fegurð

Kammerkór Egilsstaðakirkju ásamt hljóðfæraleikurum leita í smiðju tónskálda barokktímabilsins á vortónleikum sínum sem haldnir verða í Egilsstaðakirkju annað kvöld.

Barokktónlist er tónlist sem samin er á svokölluðu barokktímabili, eða um 1600-1750. Orðið „Barokk“ kemur úr úr portúgölsku og merkti upphaflega perla með óreglulega lögun. Líklegt er að notkun orðsins í tónlist hafi komið inn vegna skilgreiningar þess á skrautstíl í ítalskri myndlist sem á sautjándu öld var allsráðandi. Barokktímabilið er einmitt þekkt fyrir mikið flúr og skraut.

Vagga barokksins var á Ítalíu og þar urðu til fyrstu meistaraverkin í hinum nýja stíl. Á endurreisnartímanum (um 1420-1600) sömdu tónskáld aðallega kirkjulega tónlist fyrir söngraddir, og þurfti tónlistin ávallt að lúta ákveðnum reglum um tónbil og meðferð þeirra. Um aldamótin 1600 kom fram hópur ungra tónskálda sem lagði sig fram við að túlka innihald texta á dramatískari hátt en þekkst hafði áður.

Claudio Monteverdi var einn af forsprökkum hinnar nýju stefnu og verk eftir hann eru á efnisskrá tónleikanna. Monteverdi sagði að textinn ætti að þjóna tónlistinni en ekki öfugt og flest barokktónskáld reyndu að ná sem bestum samruna texta og tóna. Til þess að flutningur textans í söng yrði sem trúverðugastur fundu tónskáld upp stíl sem þeir kölluðu „resítatív“ eða tónles, þar sem reynt var að líkja eftir hrynjandi og áherslum talaðs máls. Verk Gregorio Allegri, Miserere, sem flutt verður á tónleikunum, er í þessum stíl.

„Áður höfum við sungið mörg verk gömlu meistaranna, Vínarklassík, innlend og erlend sönglög, kirkjuleg sem veraldleg. Að þessu langaði okkur til að takast á við barrokkverk. Stjórnandinn okkar kom með hugmyndir sem okkur leist vel á og höfum æft,“ segir Védís Klara Þórðardóttir sem fer fyrir kórnum.

Kórinn er stofnaður árið 2010. Í honum hefur verið fastur kjarni en á tónleikunum á morgun koma fram 13 söngvarar. Nokkrir þeirra taka sér einnig hljóðfæri í hönd en að auki verða tveir hljóðfæraleikarar. Einsöngvarar eru allir úr röðum kórsins og allt er fólkið af Austurlandi.

Sandor Kereks er stjórnandi kórsins. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.