Kimi Tayler: Íslendingar sjá alltaf eitthvað broslegt við hlutina

Enski grínistinn Kimi Tayler hefur komið sér fyrir á Stöðvarfirði þar sem hún starfar við Sköpunarmiðstöðina. Hún hefur síðustu misseri troðið upp víða um Austurland og gert grín að sjálfri sér, Austfirðingum og öðrum furðuverum.

Í viðtali við Austurgluggann rekur Kimi, sem er ensk að uppruna, að hún hafi fyrst komið til Íslands 2017 til að dveljast sem gestalistamaður í Sköpunarmiðstöðinni.

„Í einfeldni minni hélt ég að það væri ekkert mál að fara með rútu alla leið hingað frá flugvellinum í Keflavík. Í fyrsta áfanga komst ég á Höfn, á gistiheimilinu þar var mér sagt að ég gæti tekið rútu áfram – sem var meira maður í bíl. Þannig komst ég á Djúpavog þar sem ég sat á kaffihúsi í sex tíma við að finna mér leið áfram.

Mér var sagt að húkka mér far en ég er alin upp í menningu þar sem slíkt endar með að puttaferðalangurinn er bútaður í sundur og settur í skottið. Að lokum var það maður á leið til Akureyrar sem bauð mér far sem ég þáði,“ rifjar hún upp.

Tengir vel við íslenska húmorinn


Hún kveðst alltaf hafa verið gefin fyrir grín og í æsku og á unglingsárum notað húmorinn til að komast af. Hún hafi fundið áhuga á uppistandi en ekki treyst sér til að stíga á svið fyrr en að hafa tekið námskeið sem henni bauðst heima í London. Að lokum var það þó ekki fyrr en á Íslandi sem hún fór að leggja uppistandið fyrir sig og hefur síðan skemmt hérlendis, á Norðurlöndunum og heima í Bretlandi þar sem hún vekur athygli fyrir að vera breskur grínisti sem býr í afskekktum íslenskum firði með skrýtið nafn.

„Mér finnst íslenski húmorinn sérstakur en ég tengi vel við hann. Ég hef til dæmis alltaf horft á Áramótaskaupið og mér finnst það mjög fyndið. Ísland er á milli Bretlands og Bandaríkjanna og sækir áhrif í báðar áttir, en síðan bætist við þessi svarti skandinavíski húmor. Kannski hefur þessi landfræðilega einangrun gert húmorinn einstæðan.

Íslendingar eru beinskeyttir, þeir gera sér ekki upp kurteisi eins og Bretar. Ef þeim finnst ég ekki fyndin þá er mér sagt það beint út, þú veist hvort þeir kunna við þig eða ekki – það er ekkert þar á milli.

Íslendingar eru til í að fara út á brúnina í gríninu og þeir finna alltaf eitthvað til að hlæja að, sama hversu svört staðan er. Þar virðast engin takmörk. Þeir finna alltaf einhverja sögu þar í kring eða eru fullkomlega hreinskilnir með það sem er í gangi.“

Hver dæmir um hvort einhver sé fyndinn?


Brúnin í gríninu er oft varasöm, sérstaklega þegar hún er á hreyfingu eins og um þessar mundir þar sem ný viðmið hafa tekið gildi um hvaða tungutak sé ásættanlegt. Kimi segir mikilvægt að bera virðingu fyrir þeim sem gert er grín að og tala minnihlutahópa upp frekar en berja þá niður. Breytingarnar hafi það líka með sér í för að fram komi hópar sem áður hafi verið hafðir sem skotspónn en finni nú aukna tengingu við gamanið.

„Það er alveg rétt að línan hreyfist. Ég hef verið að grínast af og til í tíu ár og ég kann að hafa sagt hluti þegar ég byrjaði sem ég myndi ekki segja núna. Þetta tengist líka þróun tungumálsins. Við höfum flest sagt eitthvað sem ekki þykir í lagi núna því nú vitum við betur.

Það getur verið erfitt að feta sig í grínheiminum, sem til þessa hefur verið heimur gagnkynhneigðra karla. Uppistandið er tiltölulega nýlegt listform og er að finna sér sína afmörkuðu kima eins og aðrar listir. Ég kem inn í þennan heim sem samkynhneigð kona og mínir dyggustu áheyrendur eru þá kannski ekki karlarnir.

Hver dæmir um hvort einhver sé fyndinn eða ófyndinn? Getur verið að húmorinn minn eigi sér aðra áheyrendur frekar en að ég sé ófyndin? Við sjáum uppistandara núna sem koma með nýja áheyrendur, fólk sem hélt að uppistand væri ekki fyrir þau því þeir væru bara stuðpúðar. Ég get sætt mig við að einhverjum hópi þyki ég ekki fyndin, en við verðum líka að sætta okkur við að grín er ekki endilega svart eða hvítt og þar þarf að vera pláss fyrir alla.“

Áhorfendur verða að tengja við innihaldið


Í viðtalinu ræðir Kimi líka samband sitt við áhorfendur, hvernig uppistand sé að vissu leyti spuni og jafnvel samtal við gestina. „Skrifaðir brandarar eru öðruvísi en uppistand. Að skemmta áhorfendum í sal snýst oft um tímasetningar. Síðan bætist leikurinn við. Brandari getur virkaði í níu af hverjum tíu skiptum en stundum klikkar eitthvað. Það er ekki hægt að segja hvort nýr brandari sé fyndinn nema reyna hann á áhorfendum og stundum er eitthvað sem gerir það að verkum að skrifaður brandari virkar ekki. Þú þarft hins vegar alltaf að koma með nýtt efni.

Aðalmálið er að láta eins og hlutirnir séu auðveldir. Ég reyni að tala eins og ég sé að segja hlutina í fyrsta sinn, sem vissulega er stundum raunin. Stundum kemur eitthvað upp í kollinn á manni þegar maður fer að tala við áhorfendur. Ég geri dálítið mikið af því hérlendis því ég er svo forvitin um Íslands. Stundum þarf ég að stoppa mig af þannig þetta verði ekki bara samræður. Mikilvægast er að halda stjórninni.

Ég hef farið með uppistand nánast alfarið eftir handriti en þú verður að geta sveigt það. Ég hélt einu sinni uppistand fyrir bandaríska ferðamenn í Reykjavík og áttaði mig á að þeir tengdu ekki við neitt af því sem ég var að tala um. Þá er annað hvort að skipta um eða deyja á sviðinu – það er hinn möguleikinn.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.