Kiosk 108 opnar á þjóðhátíðardaginn
Menningarhúsið Kiosk 108 opnar á Seyðisfirði á þjóðhátíðardaginn. Um er að ræða gamalt stýrishús af skipi sem fengið hefur nýtt hlutverk. Verkið og einkum staðsetning þess hefur verið umdeild en staðfest hefur verið að það standi óhreyft út sumarið.„Númerið 108 var númerið á skipinu. Kiosk er alþjóðlegt orð, upprunnið í grísku, yfir lítið hús. Íslendingar tengja það við sjoppur en í þessum húsum hefur fólk hist til að versla, borða eða skiptast á fréttum,“ segir Monika Fryčová, sem stendur að baki menningarhúsinu.
Það opnar á laugardag með hátíð þar sem fram kemur hljómsveitin Miomantis frá Akureyri og Charles Ross ásamt félögum sínum. „Ég vildi opna það á þjóðhátíðardaginn því ég vildi hafa menningu þann dag. Þarna verða síðan fleiri hljómsveitir og listamenn í sumar auk þess sem ég við seljum vörur með merkinu okkar,“ segir Monika.
Múlaþing vildi ekki framlengja stöðuleyfið
Menningarhúsið stendur við Lónið á Seyðisfirði en sú staðsetning hefur vakið töluverðar deilur. Listaverkið Stýrishús – Brú fékk fyrst stöðuleyfi í júlí 2020 til eins árs og síðan framlengingu fram í september 2022. Umsókn um að framlengja það fram á þetta ár var hafnað af heimastjórn Seyðisfjarðar síðasta sumar. Sá úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á þeim forsendum ekki hefði verið gætt jafnræðis, til dæmis væri atvinnustarfsemi í fleiri húsum í næsta nágrenni né Moniku verið gefið sama færi á að kynna erindi sitt og öðrum.
Múlaþing svaraði á mótum að það sem landeigandi hafi ekki viljað hafa Kiosk 108 á þessum stað en hins vegar boðið fram annan stað. Samkvæmt minnisblaði sveitarfélagsins var stöðuleyfinu hafnað eftir athugasemdir íbúa auk þess sem húsið er utan lóðamarka þar sem ekki er gert ráð fyrir tengingum við veitulagnir. Úrskurðarnefndin féllst því ekki á kröfu um að ógilda ákvörðun sveitarfélagsins.
„Þetta er listaverk“
Kiosk 108 hefur hins vegar nú fengið leyfi til að standa áfram á sínum stað fram í október. „Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart vinnu Múlaþings því ég hélt að sveitarfélagið styddi við list.
Þetta er listaverk. Ég er að vinna með svæði sem áður var tómt og mér fannst fallegt svo ég kom þessu fyrir. Ég skil ekki hvers vegna Íslendingum finnst þetta óþægilegt. Ég er ekki að flytja neitt inn, þetta er íslenskt stýrishús og þar með íslensk hefð sem ég er að varðveita.
Ég hef ekki áttað mig á gagnrýninni og átti ekki von á henni. Ég ekki hvort deilurnar snúast um staðsetninguna, útlit hússins eða hvort ég eigi ekki samleið með menningunni í bænum.
Það gleður mig hins vegar að það er fólk sem trúir á listina og hefur staðið með mér. Sigurbergur Sigurðsson á hlut í félaginu mínu No panic sem stendur að taki húsinu. Síðan hafa þær Tinna Halldórsdóttir og Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú hjálpað mér og matreiðslumeistarinn Garðar Rúnar. Ég fékk líka listamannalaun til að vinna áfram að þessu verki meðan það var lokað í vetur. Mér finnst það viðurkenning á að þetta sé alvöru list,“ segir Monika.
Hún segist stefna á að vera í Kiosk 108 flesta daga í sumar til að taka á móti fólki og segja því sögur eða spila fyrir það tónlist. Framtíðin eftir haustið er síðan óráðin. „Ég ætla ekki í frekari slag ef mér verður sagt að fjarlægja húsið. Listin verður að vera frjáls, ekki þvinguð.“
Mynd: Kiosk 108