„Kirkjan er fyrir alla“

Sérstök regnbogamessa markaði upphaf hinsegin daga á Austurlandi í sumar. Prófastur Austurlands segir að kirkjan eigi að litrófi mannlegs samfélags fagnandi.

Hin kristna kirkja og hinsegin samfélagið hafa ekki alltaf haldist hönd í hönd. Stuðningur kirkjunnar við hinsegin fólk hefur þó orðið augljósari síðustu ár. Til dæmis hefur regnbogafánum verið flaggað við austfirskar kirkjur og í sumar hófust hinsegin dagar á regnbogamessu.

Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli og prófastur á Austurlandi, er meðal þeirra sem stutt hafa við hinsegin samfélagið. Hún kom að stofnum félagsins Hinsegin Austurlands sem fundarstjóri á stofnfundi þess og fékk árið 2021 verðlaun fyrir stuðning sinn við samfélagið.

Hún segir samstarf við félagið eðlilegan hlut, enda margir einstaklingar úr hinsegin samfélaginu sem reglulega taki þátt í starfi kirkjunnar á einhvern hátt. „Enda er það svo að kirkjan er fyrir alla hvort sem maður er svona, hinsegin eða allskonar. Þetta er sérstaklega gefandi og skemmtilegt ef maður skoðar þetta í ljósi sögunnar. Þetta gerðist ekkert sjálfkrafa í kirkjunni, ekkert frekar en í samfélaginu sjálfu og ferlið hingað sem við erum í dag er búið að vera flókið,“ segir hún.

Brautryðjandinn Cecil


Sigríður rifjar upp í þessu tilliti ákveðið brautryðjendastarf séra Cecil Haraldssonar, sem lést í vor sem leið. Áður en hann gerðist sóknarprestur í Seyðisfjarðarprestakalli árið 1998 starfaði hann fyrir Fríkirkjuna í Reykjavík.

„Hann var prestur þar áður en hann kom hingað austur en þar var hann ekki bundin af neinum samþykktum Kirkjuþings á þeim tíma, sem féllust ekki á vígslu samkynja para. Hann varð svo fyrsti presturinn hjá Þjóðkirkjunni til að gefa saman samkynja hjón.“

Fortíðin gerð upp


Sigríður rifjar einnig upp það millibilsástand sem skapast hafi gagnvart hinsegin fólki þegar lög um staðfesta samvist voru samþykkt á Alþingi 1996. „Það var svona millistig, ekki alveg hjónavígsla en þetta sýnir glögglega hvað kerfið allt var lengi að taka við sér gagnvart hinsegin fólki í þjóðfélaginu. Á stundum er það ágætt því það þarf að móta hugmyndir og standa vel að hlutunum, en þetta tímabil hefur áreiðanlega verið mjög sárt fyrir marga,“ segir hún og bendir á að þegar ný hjúskaparlög voru samþykkti hafi mikill meirihluti presta Þjóðkirkjunnar verið fylgjandi vígslu samkynja para.

Frá árinu 2020 hefur Þjóðkirkjan unnið með Samtökunum 78 að því að gera upp og læra af sögu misréttis innan íslensku Þjóðkirkjunnar gagnvart hinsegin samfélagi. Þar eru margar erfiðar sögur sem gerðar hafa verið opinberar í kirkjum landsins til minnis um að slíkt endurtaki sig ekki og virða beri frelsi og mannréttindi hinsegin fólks ekkert síður en annarra. Sigríður segir það hafa verið mikilvægt skref.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar