Konurnar spenntar en karlarnir hræddari

„Það hafa fleiri en tíu konur sýnt áhuga að vera með en því miður þá létu karlarnir ekkert sjá sig,“ segir Andrea Katrín Guðmundsdóttir, leiklistarkennari og leikstjóri, en hún hefur komið á fót tímabundnu endurminningaleikhúsi á Djúpavogi.


Endurminningaleikhús er fyrirbæri sem Andrea kynntist í Bretlandi og hefur áður sett slíkt upp í Mosfellsbæ með góðum árangri. Þetta snýst um að þátttakendur sjálfir skapa leiksýninguna með tilteknum endurminningum sínum sem þeir eru svo tilbúnir að deila með áhorfendum á sýningu í lokin.

„Þetta hefst með nokkrum fundum og sá fyrsti var í byrjun mánaðarins. Ég fer yfir verkefnið með áhugasömum og kem með ákveðin þemu sem fólk getur kannski tengt við og í framhaldi útbúið nokkurs konar leiksýningu upp úr þeim minningum. Við hjálpum hverjum og einum til að kveikja á endurminningum sínum með aðstoð tónlistar, hluta eða ljósmynda.“

Alls tólf konur mættu á kynningarfundinn en Andrea segir að ef allt gangi vel þá gæli hún við að sýningar fari fram í febrúar. Hún hefur hins vegar enga hugmynd um hvar karlarnir halda sig eða hvað þeir séu feimnir við.

„Við munum frá áramótum hittast vikulega og það alltaf einhverjir sem þátt taka sem ekki vilja þó sýna opinberlega en ég hvet alla áhugasama til að koma og kanna málið. Hvað karlana varðar þá veit ég ekki hvers vegna enginn þeirra sýndi sig enda eiga þeir góðar minningar í hugarfylgsnum eins og kvenfólkið. Það breytist vonandi með tíð og tíma og þeir velkomnir líka.

Ég er ánægð með viðtökurnar hér á Djúpavog. Það er greinilega mikill áhugi á þessu hér.“

Mynd: Andrea Katrín


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.