![](/images/stories/news/2016/kroatiski_korinn_mars16_0017_web.jpg)
Kór sem gengur út á gleði
Um ár er síðan nokkrar konur á Héraði hófu að hittast og syngja saman undir merkjum króatíska kórsins. Nafn kórsins vísar í heimaland stjórnandans, Suncönu Salmning en hópurinn syngur króatísk og georgísk lög.
Síðan hafa þær bætt við sig karlröddum og líflegri hljómsveit. Kórstarfið hefur ekki farið hátt en hópurinn kom fram og hélt vel heppnaða tónleika í Egilsstaðakirkju nýverið.
„Þetta er kór sem gengur út á gleði,“ segir Védís Klara Þórðardóttir sem syngur í kórnum.
„Það var spennandi að prófa eitthvað nýtt, að syngja á öðru tungumáli en maður hefur oft sungið áður. Við syngjum líka í annarri tónhæð en við erum vanar.
Síðan er þetta hress og skemmtileg tónlist, ekki of hátíðleg.“
Nánar var fjallað um kórinn í síðasta þætti Að austan á N4.