![](/images/margret_arnadottir_mars2017_0002_web.jpg)
Kótilettuhádegin í Bókakaffi í miklu uppáhaldi
Margrét Sigríður Árnadóttir, formaður Ungs Austurlands, er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt, en félagið stendur fyrir byggðaráðstefnu um framtíð fjórðungsins á Borgarfirði um helgina. Markmið ráðstefnunnar er að fá ungt fólk til að hafa áhrif á stefnumótun fyrir svæðið og ræða saman á jafningjagrundvelli.
Margrét segir að unnið hafi verið hörðum höndum undanfarna mánuði að skipulagningu ráðstefnunnar. „Við erum að horfa til framtíðar og virkja jafnaldra okkar til umhugsunar um það hvernig við getum haft áhrif. Við höfum fengið ótrúlegar móttökur sem sýna hversu mikil þörf var á þessu framtaki. Við erum framtíðin og því kominn tími til þess að við vöknum og förum að huga að hagsmunum okkar og framtæiðar Austurlands,“ segir Margrét.
Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og hér má sjá frétt um hana.
Fullt nafn: Margrét Sigríður Árnadóttir.
Aldur: 27 ára.
Starf: Verkefnastjóri hjá Austurför.
Maki: Já.
Börn: Nei.
Besta bók sem þú hefur lesið? Hef ekki lesið bók í mörg ár, hef ekki þolinmæðina í að sitja svona lengi. Kannski hef ég ekki byrjað á nógu góðri bók?
Hver er þinn helsti kostur? Er með ríka réttlætiskennd og reyni að horfa alltaf jákvætt á hlutina.
Hver er þinn helsti ókostur? Á það til að hafa ekki næga trú á sjálfri mér.
Duldir hæfileikar? Get talað ótrúlega mikið.
Uppáhaldslitur? Rauður.
Hvað er í töskunni þinni? Varasalvi, minta, handáburður, heyrnatól, tissjú, fimm orkustykki (prótein), lás, penni, svo veskið, síminn og húslyklarnir.
Tæknibúnaður? Í töskunni? Bara síminn
Hver er þín fyrirmynd? Mamma, hljómar klisjulega en ég vona að ég verði jafn sterk persóna og hún þegar ég verð stór.
Mesta undur veraldar? Mannskeppnan.
Hver væri titillinn á ævisögunni þinni? Ég veit, ég get, ég skal.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Undafarna tvo mánuði hef ég farið í öll bæjarfélög á Austurlandi við kynningu á félaginu Ungt Austurland svo ég verð að segja landshlutinn í heild.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Heimsfriður, viljum við það ekki öll?
Syngur þú í sturtu? Já.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Fer í vinnuna, ræktina (ókey stundum) og svo heim. Er þá yfirleitt orðin svo þreytt að ég leggst fyrir framn sjónvarpið.
Hver eru þín helstu áhugamál? Lífið, fjölskyldan og vinirnir, heilbrigður lífstíll, hagsmunir ungs fólks á Austurlandi og ferðast.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Miðvikudagar eru að verða pínu uppáhalds, þá eru kótelettur í hádeginu á Bókakaffi.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Oh svo erfitt að velja bara þrennt. En, allavega ferðast í allar heimsálfurnar. Vera duglegri að ferðast um Ísland. Svo langar mig ótrúlega í teygjustökk – það hræðir mig svo er farið að langa til að prufa það.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Jákvæðni og hressleiki.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Við hjá Ungu Austurlandi erum að halda ráðstefnu á Borgarfirði Eystra. Ætla að eyða helgina þar í góðum hópi og ræða hagsmuni ungs fólks og framtíð fjórðungsins.