Ákærður fyrir manndráp af gáleysi
Tæplega tvítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot á Fáskrúðsfirði.
Fréttablaðið greinir frá því í dag að manninum sé gefið að sök að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. maí síðastliðinn ekið bifreið undir áhrifum áfengis, án ökuréttinda og of hratt miðað við aðstæður. Hann missti stjórn á bifreiðinni í krappri beygju þannig að hún fór út af veginum og síðan margar veltur. Farþegi sem sat í aftursæti hennar hlaut það mikla áverka að hann lést nær samstundis. Sá sem ók hefur játað sök.