Krydd í tilveruna utan úr Eiðaþinghá

Innan skamms mun verða hægt að kaupa kryddblöndu úr villtum jurtum og sveppum úr Eiðaþinghá. Það eru tvær konur úr sveitinni sem standa að baki framtakinu en þær hafa einnig boðið upp á klassískt bakkelsi til sölu sem þær senda heim að dyrum.

Þær Lilja Sigurðardóttir á Ormsstöðum og Indíana Ósk Magnúsdóttir á Fljótsbakka sem komu fyrir skemmstu á fót fyrirtækinu Þinghárgott, en nafnið vísar til þess að báðar eru búsettar í Eiðaþinghá. Lilja segir að fyrstu skrefin hafi verið stigin í lok síðasta árs.

„Upphafið að þessu er að við fengum úthlutað styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til þess að framleiða krydd úr villtum jurtum. Kökurnar eru síðan hliðarverkefni meðfram því.“

 

Eigin blanda úr villtum gróðri

Villtum jurtum er eins og gefur að skilja aðeins hægt að safna á ákveðnum tímum ársins og að undanförnu hefur verið uppskerutími.

„Við höfum verið að tína blóðberg og birkilauf, svo erum við í sveppatínslu núna og það er kryddblanda úr þessu sem við búum til. Við stefnum á að framleiða 2.000 einingar af kryddi til að koma í sölu. Við erum að tína og þurrka núna, en meðfram því erum við svo að baka.“

Kökurnar eru af þeirri gerð sem margir kannast kannski betur við úr æsku og ef marka má viðbrögðin er ákveðin eftirspurn eftir því að mati þeirra Lilju og Indíönu.

„Þetta er svona ömmubakstur, kannski kökur sem þú færð ekki orðið mikið í bakaríum heldur gamaldags kökur, þannig séð. Það hefur verið mjög mikil eftirspurn. Fólki finnst líka algjör snilld að fá þetta sent heim að dyrum, því við bjóðum upp á það, svona hér á Stór-Egilsstaðasvæðinu að minnsta kosti. Við reynum síðan líka að baka eins og hægt er glúteinlaust ef fólk óskar eftir því.“

 

Á vefnum og í Vök

Þær stöllur eru rétt að komast af stað með reksturinn, eru nýlega búnar að afhenda fyrstu pantanir af kökum og vinna nú að kryddframleiðslunni. Lilja segir þær feta sig rólega áfram í markaðssetningunni.

„Við höfum enn sem komið er bara unnið í gegnum samfélagsmiðla, en svo erum við með heimasíðu í smíðum og ætlum líka koma okkur á framfæri á þeim stöðum sem hægt er hérna fyrir austan, til dæmis í gegnum SparAustur. Svo mun reyndar kryddið fara í sölu í Vök, auk þess að vera á netinu, og hugsanlega fleiri stöðum. En síðan sjáum við til hvernig það þróast.“

Og hún segir að þær séu þegar farnar að hugsa út í næstu skref.

„Við sjáum fyrir okkur að gera meira með kryddin, fleiri tegundir og mögulega aðrar afurðir úr villtum jurtum, það er megináherslan hjá okkur að nýta það sem er hér fyrir utan gluggann og í túnfætinum hjá okkur.“

 

Birkilauf eru hluti af kryddblöndunni frá Þinghárgotti. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.