Kvenfélögin hornsteinar framfara

Samband austfirskra kvenna (SAK) fagnar í ár 95 ára afmæli sínu. Formaður segir félagið hafi staðið fyrir margvíslegum framfaramálum í fjórðungnum á starfstíma sínum.

„Kvenfélög nútímans eru hornsteinar framfara í hverjum landshluta fyrir sig. Öll kvenfélög hafa það að markmiði að efla samfélag sitt og sínar félagskonur,“ segir Helga Magnea Steinsson, formaður SAK í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Eitt fyrsta verk félagsins á sínum tíma var að safna fyrir húsmæðraskóla á Hallormsstað til að mennta stúlkur í sveitum. Stuðningur félagsins skipti sköpum við að koma skólanum á laggirnar.

Helga segir starfsemi SAK frá upphafi hafa einkennst af vilja félaga til að bæta sitt nærsamfélag. „Í því tilliti má nefna að það var SAK sem stóð fyrir söfnun vegna stofnunar vistheimilisins Vonarlands á Egilsstöðum.

SAK styrkti ennfremur starfsemi Fræðsluskrifstofu Austurlands, Minjasafns Austurlands, stofnaði sjóði bæði fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Félagið kom líka að stofnun styrktarsjóðs Eiðaskóla og sömuleiðis að stofnun kirkjumiðstöðvar á Eiðum svo eitthvað sé nefnt.“

Afmælishátíðin sjálf fer í Tungubúð í Hróarstungu þann 22. október en þar mun forseti Kvenfélagasambands Íslands, Dagmar Elín Sigurðardóttir, heiðra gesti með nærveru sinni.

Stjórn Kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað. Helga er lengst til vinstri. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.