Kvikmyndatónlistin krefst óvenjulegra hljóðfæra í sinfóníuhljómsveitinni

Sinfóníuhljómsveit Austurlands tekst á við stærsta verkefni sitt til þess á sunnudag þegar hún flytur nokkur af þekktustu tónverkum kvikmyndasögunnar á tónleikum í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

„Kvikmyndatónlistin gerir aðrar kröfur til sinfóníuhljómsveitarinnar en hefðbundin verk. Kvikmyndaverkin kalla bæði á stóra hljómsveit en líka hljóðfæri sem eru ekki í hefðbundinni sinfóníuhljómsveit, allra síst á Austurlandi. Í henni er mikið af slagverki og ýmiss konar rafhljóðum,“ segir Sóley Þrastardóttir, einn meðlima sveitarinnar.

Hljóðfæraleikararnir eru um 45 talsins að þessu sinni og kemur þorri þeirra af Austurlandi en liðsaukar frá Norðurlandi og úr Reykjavík. „Undirbúningurinn hefur gengið ljómandi vel. Tónleikar sem þessir eru mikil áskorun og mikil vinna en samstarfið hefur gengið vel. Verkefnið er ekki bara flókið heldur líka dýrt og við höfum fengið mikinn stuðning frá fyrirtækjum á svæðinu.“

Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð af sjö austfirskum hljóðfæraleikurum vorið 2018 og hélt sína fyrstu tónleika í desember sama ár. Á tónleikunum eru meðal annars verk eftir John Williams sem samdi tónlistina við Stjörnustríðsmyndirnar og Ennio Morricone sem er þekktur fyrir stefn sín úr spaghettívestrunum. „Þetta er kvikmyndatónlist sem fólk þekkir og ætti að höfða til allrar fjölskldunnar,“ segir Sóley. Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00 en dyr Tónlistarmiðstöðvarinnar opna klukkan 15:30.

Þá verður Högni Egilsson með tónleika á Fosshótel Austfjörðum á Fáskrúðsfirði í kvöld. Aðgangur þar er ókeypis. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.