Kvöldverður á Nesi í fyrsta sinn á Eskifirði

Hljómsveitin Kvöldverður á Nesi frá Neskaupstað kemur saman á ný til að halda tónleika á Eskifirði. Hljómsveitin er ein af þeim sem aldrei hefur hætt þótt vart sé hægt að segja að hún hafi verið virki í meira en 30 ár. Hljómsveitin þótt með efnilegri sveitum Austurlands í byrjun níunda áratugarins en hún var upphaflega mynduð til að spila á því sem hljómsveitarmeðlimir lýstu sem „snobbkvöld.“

Hljómsveitin var stofnuð árið 1979 til að spila undir borðhaldi í tengslum við 50 ára afmæli Neskaupstaðar. Í viðtali í DV ári síðar notaði einn hljómsveitarmeðlima orðið „snobbkvöld“ til að lýsa þessum kvöldverðum. „Það olli töluverðum úlfaþyt,“ rifjar bassaleikarinn Guðjón Steinar Þorláksson upp.

Þurfti leyfi sýslumanns til að spila

Hljómsveitina skipa, auk Guðjóns, þeir Sigurður Sveinn Þorbergsson, Daníel Þorsteinsson og Jóhann Geir Árnason. Guðjón, Sigurður og Daníel voru bekkjarbræður og eru allir starfandi tónlistarmenn í dag. Jóhann var nokkrum árum yngri og þótt hann hafi lengst af starfað sem vélstjóri á hann góðan tónlistarferil að baki sem trommuleikari Sú Ellen.

„Jóhann var það ungur að hann þurfti leyfi sýslumanns til að spila með okkur á böllum. Þá mátti byrja að spila á þeim á sextánda ári en hann var bara fjórtán,“ segir Guðjón. Jóhann var reyndar ekki alltaf tiltækur og í einhverjum tilfellum hljóp Pétur Hallgrímsson, kenndur við Tónspil, í skarðið.

Guðjón segir þá félaganna hafa verið saman í nokkrum danshljómsveitum áður en Kvöldverðurinn varð til. „Við vorum búnir að vera í nokkrum sveitum sem hétu alltaf nýjum nöfnum.“

Það sem skildi Kvöldverðinn frá flestum öðrum hljómsveitum á sama tíma var að almennt var ekki söngvari með sveitinni. Sveitin fór líka sínar eigin leiðir, í viðtali í Austurlandi frá 1990 þar sem rifjaðar eru upp ýmsar sögur frá starfstíma sveitarinnar, er sagt frá því að tilraunir hafi verið gerðar með að útsetja klassísk verk í poppstíl fyrir sveitina.

Litu upp til Amon Ra

Þeir voru þó til staðar tvö sumur þegar sveitin gerði út á sveitaballamarkaðinn. Annars vegar söng Lára Sigbjörnsdóttir frá Egilsstöðum, hins vegar Haukur Hauksson. Sá er bróðir Eiríks Haukssonar, en Eiríkur var einmitt í Amon Ra frá Norðfirði líkt og Pétur og eldri bróðir Guðjóns, Ágúst Ármann.

„Við vorum sér á báti. Það var engin instrumental-sveit eystra á þessum tíma. Við spiluðum á einhverjum böllum en vorum öðruvísi en Amon Ra var á dansleikjamarkaðinum í fjölda ára. Við litum mjög upp til hennar.

Við vorum að miklu leyti aldir upp í Tónskólanum hjá bróður mínum. Við fengum þar æfingaaðstöðu og Aggi var duglegur að nota okkur til að spila undir með sér við ýmis tækifæri. Það má segja að tónskólinn hafi verið okkar annað heimili.“

Áberandi best

Guðjón segir sveitina ekki hafa starfað í mörg ár og bætir við að „þökk sé internetinu þá erum við enn til.“ En þótt sveitin hafi starfað stutt er ljóst að hún vakti talsverða athygli á sínum tíma.

Í frásögn DV um tónleika á Reyðarfirði í maí 1980 segir að Kvöldverður á Nesi hafi verið „áberandi best“ þeirra hljómsveita sem komu fram. Samkeppnin var hörð því hóað var saman sex efnilegum hljómsveitum af Austurlandi sem innihéldu liðsmenn sem eru vel þekktir úr austfirsku tónlistarlífi. Má þar nefna Áslák á Hlöðum þar sem Jón Arngrímsson var innanborðs, Tríó Kára Kristjánssonar frá Stöðvarfirði með Garðari Harðarsyni og Slagbrand frá Egilsstöðum með þá Árna Ísleifsson og Friðjón Jóhannsson. Samhliða tónleikunum kom út lítið blað, Poppgusa, með viðtölum við sveitirnar. „Þetta voru merkilegur tónleikar,“ segir Guðjón.

Sveitin spilaði víða um svæðið. Hún tók meðal annars fram í hljómsveitarkeppnum á Atlavíkurhátíðunum en Guðjón viðurkennir að annað en faglegur metnaður hafi sveitina áfram þar. „Við vorum ekki starfandi heldur æfðum 2-3 lög til að spila því þeir sem kepptu fengu frítt inn. Annað árið urðum við í öðru sæti á eftir Lólu frá Seyðisfirði, þar sem Aðalheiður Borgþórsdóttir var söngkona. Annað árið vorum við neðar. Mig minnir að Skriðjöklarnir hafi unnið þá.“

Athylgisvert fyrir sveitamennina að sjá Fræbblana

Guðjón segir sveitina hafa spilað um nær allt Austurland, nema hann minnist þess ekki að hafa spilað áður á Eskifirði. Í eitt skipti spilaði Kvöldverður á Nesi á verslunarmannahelgarhátíð á Reyðarfirði þar sem Hljómar komu saman á ný í fyrsta sinn eftir langt hlé.

Hljómsveitin kom líka fram utan fjórðungs. Þannig hlotnaðist henni sá heiður að spila á tónleikaröð sem kallaðist SATT-kvöld á Hótel Borg. Aftur var sveitin i nokkrum öðrum stíl heldur en aðrar sveitir því hinar sem komu fram voru Friðryk með Pálma Gunnarssyni og pönksveitin Fræbblarnir.

„Það var mjög athyglisvert fyrir unga sveitamenn að sjá Fræbblana. Maður var svolítið stjarfur. Við vissum ekki hvað pönkið var því það var ekki komið austur en þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Guðjón.

Ekki spilað saman fjórir í áraraðir

Hann segir að hljómsveitarmeðlimir hafi haldið samband í gegnum tíðina og reglulega spilað saman sitt í hverju lagi en ekki allir fjórir saman fyrr en tónleikunum sem haldnir verða í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á laugardag. „Þetta er gamall draumur. Við erum búnir að tala um þetta lengi, við ætluðum upphaflega að koma saman fyrir tveimur árum á 39 ára afmælinu en svo varð ekkert úr því og heldur ekki í fyrra. Nú ákváðum við að kýla á þetta.“

Á efnisskránni verða lög úr ýmsum áttum, bæði eftir Þursaflokkinn og Megas en einnig frumsamin lög sem flest eru eftir Daníel. Flest lögin verða spiluð án söngvara, eins og sveitin er vön, en Guðjón lofar þó einum leynigesti. „Við gerum þetta á okkar forsendum. Við spilum það sem finnst okkur finnst skemmtilegt og vonum að öðrum finnist það líka. Þetta á að vera eitthvað sem allir geta fílað.“

Guðjón býr í dag í Reykjavík en hann nýtir ferðina austur vel því annað kvöld kemur hann fram á síðustu tónleikum Bláu kirkjunnar í sumar með kvartettinum Kurr. „Við höfum spilað þar einu sinni áður. Við spilum franska tónlist. Það verður líka mjög skemmtilegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.