Kyndilbænaganga á Egilsstöðum
Í kvöld stendur Kristilegt stúdentafélag, KSF, fyrir kyndilbænagöngu á Egilsstöðum. Gengið verður frá Menntaskólanum á Egilsstöðum kl. 20:30, að Egilsstaðakirkju, sjúkrahúsinu og þaðan í Sláturhúsið. Stúdentamessa verður í Egilsstaðakirkju á sunnudag kl. 11.
Kl. 21:15 í kvöld hefst kvöldsamkoma í Sláturhúsinu á vegum KSF. Þar verður tónlist í fyrirrúmi auk þess sem kynning verður á kristilegri skólahreyfingu á Íslandi. Þá mun Stefán Bogi Sveinsson halda ræðu undir yfirskriftinni Hvað seður mig/þig? Samkomunni verður útvarpað beint á Útvarpi Andvarp FM 103,2.
KSF hvetur allt ungt fólk til þess að mæta og kynnast því hvað getur falist í kristnu starfi utan hefðbundins ramma messugjörðar.
Sunnudaginn 15. nóvember verður stúdentamessa í Egilsstaðakirkju kl. 11. Messan er samstarfsverkefni Egilsstaðakirkju og KSF og hefst kl. 11:00.
Í messunni munu félagar úr KSF sjá um tónlist og ritningarlestra ásamt því að sr. Jón Ómar Gunnarsson, æskulýðsprestur Kristilegu Skólahreyfingarnnar og KFUM & KFUK á Íslandi, prédikar. Messan verður með léttara sniði en hefðbundin messa og eru allir hvattir til að mæta.
Kyndilbænagangan, samkoman og stúdentamessan eru hluti af Stúdentamóti KSF sem fer fram dagana 13-15. nóvember á Eiðum. Verkefnið er styrkt af Kirkjumálasjóði og Æskulýðssjóði.