Kynsegin fólk þarf að finna öryggi í samfélaginu

Listamaðurinn Ra Tack á Seyðisfirði er meðal þeirra sem skilgreina sig sem kynsegin. Hán segist almennt hafa fundið fyrir öryggi í umhverfinu, helst hafi fólk spurt furðulegra spurninga. Ra stendur í haust fyrir listasmiðjum fyrir hinsegin ungmenni í samvinnu við alþjóðlega hinsegin listamenn.

Ra er meðal þeirra sem sextán einstaklinga sem koma að Heima, setri fyrir listafólk sem kemur til Seyðisfjarðar til að vinna að list sinni, halda sýningar eða miðla þekkingu sinni. Ra hefur sérstaklega lagt áherslu á að fá þangað hinsegin listamenn.

Frá miðjum september og fram í lok mánaðar eru væntanlegir þangað sex hinsegin listamenn víða úr heiminum, hver til vikudvalar. Listafólkið sem kemur í ár mun standa fyrir viðburðum, til dæmis vinnusmiðjum, sem sérstaklega eru ætlaðir hinsegin ungmennum á Austurlandi.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir munu gera, það verður ákveðið af hverjum og einum listamannanna þegar nær dregur. Við erum ákveðin að vera með viðburði í Heima en erum líka að skoða viðburði á Egilsstöðum og í Neskaupstað.“

Í lok október eru einnig væntanlegir félagar úr Slagtogi, femínískum samtökum sem leidd eru af konum af erlendum uppruna og hinsegin fólki sem halda námskeið í sjálfsvörn fyrir konur og hinsegin fólk. „Við fengum þau líka hingað í fyrra og það tókst mjög vel.“

Utan tvíkynjakerfisins


Ra skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, er kynsegin eða „non-binary“, utan tvíhyggjukerfis sem aðeins talar um konur og karla. „Ég fæddist sem kona en leit aldrei á mig sem konu en heldur ekki sem karl. Ég er almennt ekki hrifið af skilgreiningum en þessi hugtök opnuðu mér leið og ég öðlaðist meiri skilning á sjálfu mér. Sumt fólk talar um þriðja kynið en annað um hvorugkyn. Mér finnst mjög fallegt að kynsegin sé til. Þessu fylgja líka ný fornöfn. Í ensku er talað um þau (they/them) en í íslenskunni hán.

Fyrir 2-3 árum bað ég vini og fjölskyldu að skipta yfir í kynsegin fornöfnin. Fólk, sérstaklega hér á Seyðisfirði, hefur verið mjög opið fyrir því, sýnt mikinn skilning og notað persónufornöfnin rétt. Mér finnst vænt um að heyra það því mér finnst þessi fornöfn eiga miklu betur við mig.“

Ísland almennt opið


Orðaforði og hugtök um hinsegin fólk hafa þróast hratt á fáum árum og á Íslandi hafa ný orð bæst í tungumálið. Í fyrra var í fyrsta sinn hægt að skrá sig sem kynsegin hjá Þjóðskrá.

„Það er rétt að það eru mörg orð að koma fram en síðan er líka afar fljótandi hvernig fólk skilgreinir sig. Einkum um kynhneigð eru mörg hugtök í gangi en það er líka mjög fallegt. Ég hef rætt þessi málefni, einkum við kennara í Reykjavík og fólk er sífellt að finna betur sína leið eða sitt persónufornafn. Vitaskuld hef ég meiri áhuga á þessu því ég tilheyri hópnum.“

Ra, sem er fætt í Belgíu og bjó þar fyrstu 20 æviárin, hefur undanfarin tíu ár mest búið á Seyðisfirði og segist ekki á förum þaðan í bráð. Hán segir hóp hinsegin fólks á Austurlandi fara stækkandi og almennt virðist lítið opinberlega um fordóma. „Ég finn að hinsegin hópurinn hér er vaxandi. Fyrst var ég eitt, síðan hafa fleiri flutt í bæinn, jafnvel önnur sem eru kynsegin eða vilja ekki nota neinar skilgreiningar.

En það er líka ljóst að það er stór hópur sem enn hefur fordóma í garð hinsegin fólks. Ég verð reyndar ekki vart við það á Seyðisfirði. Nokkrum sinnum hefur útlit mitt ruglað fólk og ég verið spurt hvort ég sé karl eða kona. Sumu hinsegin fólki finnst þessar opinskáu spurningar erfiðar en ég tek þeim. Margar þeirra eru því fólk er forvitið og vill fræðast um hinsegin fólk.

Almennt eru Íslendingar opnir fyrir hinsegin fólki en samt er ýmislegt eftir í réttindabaráttunni, til dæmis hvað varðar transfólk í íþróttum. Yfir höfuð er Ísland öruggt. Fólk samþykkir mig eins og ég er.“

Mynd: Juanjo Ivaldi

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.