Lærði allt um útskurð til að hafa ofan af fyrir sér á efri árum
Það kostaði langar setur yfir You-Tube myndböndum en fyrir vikið er Björn Óskar Einarsson frá Reyðarfirði orðinn ansi lunkinn við útskurð af ýmsu tagi og nýtir til þeirra verka aragrúa trjáa sem féllu í óveðrinu mikla á Austfjörðum haustið 2022.
Ástæða þess að Björn Óskar lagði í það ferðalag að læra allt um útskurð er æði merkileg því það gerði hann eingöngu til að hafa ofan af fyrir sér að starfsævinni lokinni. Hann vissi nánast ekkert um útskurð en hafði nægan áhuga til að horfa á fjölda myndbanda um útskurðarlistina og keypti í kjölfarið allt helstu græjur sem til þarf.
„Ég sá þetta og sé enn sem svona dundurverkefni þegar maður kemst á aldur. Ég orðið vitni að því gegnum tíðina að alltof margir sem nálgast starfslok hafa ekki undirbúið það með neinum hætti og finna sig illa í kjölfarið. Persónulega finnst mér þetta nánast vera stórt þjóðfélagslegt vandamál. Þannig að ég ákvað að demba mér út í þetta. Keypti mér rennibekk og útskurðartól og fór, með aðstoð YouTube, að prófa mig áfram fyrir þremur árum síðan.“
Birni þótti fljótlega ekki nógu flókið að læra eingöngu útskurð frá grunni heldur fór innan tíðar að prófa sig áfram með ýmsar efnablöndur sem virðast við fyrstu sýn hvergi eiga heima innan um viðarmuni.
„Það er ekki langt síðan ég hóf að prufa að fikta með eitt og annað efnið og kanna hvað gengur með tilteknum við og hvað ekki. Það vita bara þeir sem hafa dýft sér djúpt í þessa hluti á YouTube að það er heill heimur af fólki þarna úti sem fiktar sig áfram með ýmis viðbótarefni til að fá tiltekið útlit og áferð á viðarmunina og úrvalið nánast óendanlegt. Það eiginlega lygilegt hvað menn eru að prófa sig áfram með. Sjálfur hef ég aðeins verið að prófa að blanda áldufti við viðinn og það að koma betur og betur út því oftar sem ég reyni. Svo eru mörg önnur efni sem ég hef áhuga að prófa en ég er enn bara byrjandi í svona löguðu.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.