Lærdómsríkt að vera trúnaðarmaður

Bergrún Gígja Sigurðardóttir kynntist fyrst verkalýðsstarfi upp úr fermingu þegar hún byrjaði að vinna í frystihúsinu á Höfn í Hornafirði. Hún fluttist sextán ára á verbúðina Ásgarð og síðan til Reykjavíkur og Svíþjóðar en rak líka um tíma hið sögufræga félagsheimili Húnaver ásamt manni sínum. Hún hefur í tæpan áratug verið trúnaðarmaður í álverinu á Reyðarfirði.

Í viðtali við Austurgluggann rifjar Bergrún Gígja upp að hún hafi byrjað að vinna í frystihúsinu á Höfn í kringum fermingu. Þáverandi formaður verkalýðsfélags staðarins hafi komið til að ræða við hópinn og þannig hafi hún fundið að það væri eðlilegt að ræða um kaup, kjör, aðbúnað og fleira.

Hún hafi þó ekki hugsað mikið út í verkalýðsbaráttuna fyrr en um 30 árum síðar þegar henni bauðst að verða trúnaðarmaður hjá Alcoa Fjarðaáli. Það hafi verið afar gefandi.

„Þessi ákvörðun hefur gefið mér mikið, kennslan á trúnaðarmannanámskeiðunum hefur verið ómetanleg og veitt mér innsýn í réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Mér finnst að það eigi að vera eftirsótt að gerast trúnaðarmaður og hefði viljað verða það fyrr. Þess vegna hef ég sagt börnunum mínum að hika ekki við að grípa slíkt tækifæri, það sé að minnsta kosti gott fyrir börnin þeirra síðar meir að hafa þekkinguna,“ segir hún.

Flogið heim til að vinna


Bergrún Gígja er næst elst sex systkina frá bænum Ási í Nesjum. Elsta systirin, Þuríður Harpa, er þekktust en hún er formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Bergrún Gígja hefur komið víða við á lífsleiðinni. Sextán ára fluttist hún að heiman á verbúðina á Höfn. Ekki löngu síðar keypti hún íbúð ásamt tveimur systra sinna í Reykjavík. Um tíma bjó hún í Svíþjóð ásamt yngstu systur sinni, Þórunnbjörgu.

„Ég var þar í tæp tvö ár. Ég kom reyndar heim um sumarið til að vinna í Faxeyri, humar- og saltfiskvinnslu. Guðmundur Eiríksson, maðurinn að baki Faxeyri, er minn uppáhalds atvinnurekandi. Hann hringdi í mig út til Svíþjóðar og sagðist ekki getað hugsað sér að setja humarvinnsluna í gang án þess að ég væri til staðar. Hann borgaði fyrir mig flugið heim. Mér finnst að atvinnurekendur eigi að vera svona, að láta starfsfólkið finna að það sé mikils virði skiptir miklu máli.“

Skemmtilegur tími í Húnaveri


Eftir að hún fluttist aftur til Íslands bjó hún á höfuðborgarsvæðinu og Selfossi áður en hún fluttist áfram manni sínum, Páli Stefánssyni, norður í land þar sem þau tóku við rekstri félagsheimilisins og ferðaþjónustunnar að Húnaveri. „Tíminn þar var skemmtilegur með ofboðslega góðu fólki allt í kring og gott fyrir börnin að alast þarna upp.

Húnaver er gamalt félagsheimili við þjóðveginn og var á þessum tíma rekið af sveitarfélaginu. Þar var nóg um að vera allt árið, spilakvöld bæði félagsvist og brids, æfingar hjá karla- og kirkjukórnum, fundir hjá kvenfélaginu og fleirum að ógleymdum þorrablótunum. Þarna var líka tjaldsvæði og við vorum með morgunverðarhlaðborð fyrir gesti. Ég bakaði oft skonsur á morgnana og kökur fyrir fundi. Einu sinni í mánuði kom hárgreiðslukona og sveitungarnir mættu til hennar.

Við byggðum upp húsdýragarð og hestaleigu á þessum tíma, sem ekki er til staðar lengur. Húnaver varð 50 ára 7. júní 2007 og var haldin afmælishátíð og ball með hljómsveitinni Hafró.“

Flutningar á Þorláksmessu


Í lok árs 2007 flutti fjölskyldan austur á land þar sem Páll og Bergrún höfðu ráðið sig í vinnu hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði, sem var þá rétt komið í gang. Fjölskyldan flutti fyrst til Reyðarfjarðar.

„Við komum austur á Þorláksmessu, rétt náðum á fasteignasöluna fyrir lokun til að sækja lyklana og brunuðum svo beint á Reyðarfjörð. Gámurinn var kominn. Við leigðum í „Lego-húsinu“ í Stekkjarholti. Í hinum hlutanum býr Magnús Helgason, forstjóri Launafls og konan hans, Sólveig Baldursdóttir. Við vorum með fimm lítil börn og Magnús og Sólveig komu út til að hjálpa okkur að bera inn. Það gekk svo vel að allt innbú var komið á sinn stað og jólatréð var komið upp um kvöldið.

Morguninn eftir ætlaði Palli að elda hafragraut handa krökkunum og var kominn með pottinn á helluna en það bara gerðist ekkert. Hann fór yfir og komst að því að við værum með spanhellu, þau lánuðu okkur pott þannig að við gátum eldað um jólin.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.