Landpósturinn byrjar að bera út bréfin

Einar Skúlason, sem nú fetar eftir gömlum leiðum landpóstanna frá Seyðisfirði yfir um fjöll til Akureyrar, hefur lagt að baki um fjórðung leiðarinnar með að hafa gengið yfir 30 km í gær. Til að halda í hefðina er hann með jólakort í bakpokanum og mun koma því fyrsta til skila í dag.

Einar gekk stuttan spöl í fyrradag, fór þá aðeins frá Egilsstöðum yfir að Fjallsseli í Fellum enda hafði hann daginn áður farið frá Seyðisfirði til Egilsstaða yfir Vestdalsheiði. Í gærmorgunn fór hann frá Fjallsseli um klukkan átta að morgni og kom í náttstað á Hótel Stuðlagili á Skjöldólfsstöðum klukkan hálf níu í gærkvöldi.

„Fellaheiðin var erfið, þar var meiri snjór en ég bjóst við þannig ég fór á snjóþrúgurnar. Mér sóttist ferðin annars jafnt og þétt. Ég fór að hluta yfir ísinn á Sandvatni, hann var mjög traustur.

Hrafndís Bára (Einarsdóttir) hafði samband með boð um um gistingu á Hótel Stuðlagili. Það var gulrót til að halda áfram lengra frekar en tjalda þótt það þýddi að ég gengi Jökuldalinn nær allan í myrkri. Það er fínt að sofa í tjaldinu en það er bras að tjalda því, einkum á frosinni jörð eða ef snjórinn er ekki nógu þéttur til að hælarnir festist. Þá nýtist tíminn betur með gistingu.“

Einar kom niður af Fellaheiðinni að Skeggjastöðum á Jökuldal. „Gunnar Valgeirsson, bóndi á Smáragrund, kom þar upp á móti mér. Hann vildi athuga hvort ekki væri allt í góðu hjá mér. Það var skemmtilegt og við tókum gott spjall.“

Leggur á Fjöllin


Einar heldur nú upp úr byggð og leggur á Jökuldalsheiðina en hann stefnir á að gista í Sænautaseli í kvöld. „Lilja (Óladóttir) og Hallur (Gunnarsson) hafa leyft mér að vera þar, sem er ótrúlega rausnarlegt. Lilja sagði að landpósturinn yrði að fá að vera inni.

Ég sagði henni ekki frá því en það er komið að fyrsta útburðinum hjá landpóstinum, þangað fer fyrsta kortið,“ segir Einar. Hægt hefur verið að panta jólakort til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis sem hann færir fólki á leiðinni. „Ég er með bréf á fleiri staði á leiðinni. Við það léttist bakpokinn.“

Einar stefnir síðan áfram að Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum yfir helgina. Hann hefur nú þegar lagt að baki 74 af 280 km leiðarinnar, eða um fjórðung. „Fyrir utan nýfallna snjóinn hefur færið verið gott og veðrið fínt. Maður finnur ekki fyrir kuldanum á hreyfingu. Eins og landpóstarnir áður nýtir maður veðurgluggann til að komast áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar