Leikara vantar vegna flugslysaæfingar
Á laugardaginn eftir rúma viku verður haldin reglubundin flugslysaæfing á Egilsstaðaflugvelli þar sem allir helstu viðbragðsaðilar æfa sín viðbrögð við flugslysi farþegavélar sem hlekkist á í lendingu. Óskað er eftir leikurum sem áhuga hafa að leika slasað fólk meðan á æfingunni stendur.
Slíkar æfingar fara fram reglulega af hálfu Isavia á öllum helstu flugvöllum landsins og að þeim kemur mikill fjöldi viðbragðsaðila á borð við lögreglu, björgunarsveitir, slökkvilið, almannavarnardeild ríkisögreglustjóra og heilbrigðisstofnana svo aðeins fáir séu nefndir sem þátt taka.
Að sögn Haraldar Geirs Eðvaldssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna á Austurlandi, gengur áætlunin út á að hefðbundinni farþegavél hlekkist á við Egilsstaðaflugvöll og hvernig brugðist verði við slíku.
„Í grunninn er þetta viðbragðsæfing við hópslysi. Þarna koma að, auk okkar hjá Brunavörnum Austurlands, aðilar á borð við Rauða krossinn, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Isavia sjálft, björgunarsveitir á svæðinu, almannavarnir auk margra annarra.“
Sjálfur segist Haraldur vona að aldrei komi til þess að nýta þurfi reynsluna af slíkum æfingum en í þessu sem öðru sé varinn góður.
Þörf er á nokkrum fjölda sjálfboðaliða til að leika slasaða einstaklinga fyrir æfinguna 14. september en hún mun standa yfir frá morgni fram til klukkan 14 þann dag. Sérstakur kynningarfundur fyrir áhugasama verður kvöldið áður í Egilsstaðaskóla þann 13. október en mæting er svo snemma daginn eftir því velflestir leikarar þurfa sérstaka förðun til að líkja eftir hugsanlegum meiðslum hvers og eins farþega vélarinnar sem brotlendir.