Leikfélag ME frumsýnir Litlu hryllingsbúðina - Myndir
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum (LME) frumsýnir í kvöld söngleikinn Litlu hryllingsbúðina í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Formaður leikfélagsins segir undirbúninginn hafa verið snarpan en gengið vel og tilhlökkun ríki í leikhópnum.„Stemmingin í hópnum er mjög góð, það eru allir slakir. Við stefnum saman í Vök og hittumst aftur í Sláturhúsinu tveimur tímum fyrir sýningu til að gera okkur tilbúin og mynda stemmingu,“ segir Hekla Pálmadóttir, formaður LME sem fer með eitt af aðalhlutverkum sýningarinnar.
Litla hryllingsbúðin er upphaflega kvikmynd, frumsýnd 1960. Söngleikur, byggður á myndinni, var frumsýndur árið 1982 og íslensk uppfærsla 1985. Hryllingsbúðin, með hina blóðþyrstu plöntu Auði 2 í fararbroddi, hefur síðan verið sett á fjalirnar af leikhópum víða um land.
„Ég fékk að velja leikverk sem formaður. Mig langaði að sýna Rocky Horror en LME hefur sýnt það áður og við reynum að taka ný verk. Þetta er söngleikur með skemmtilegri sviðsmynd, ég held mikið upp á myndina og þegar ég fór að skoða verkið nánar þá fann ég enga galla á því. Vonandi líkar fólki það jafn vel,“ segir Hekla.
Gengið vel frá því byrjað var að æfa rennsli
Leikhópurinn er fjölmennur, um 20 manns, auk þess fleiri menntskælingar ganga í verk eins og förðun, hljóðstjórn og gerð sviðsmyndar. Jóel Sæmundsson leikstýrir verkinu.
„Það hefur allt gengið mjög vel. Við vorum með minni tíma til æfinga heldur en í fyrra þannig ég óttaðist að þetta yrði erfitt. Leikstjórinn hefur aðrar aðferðir þannig að verkið kom um leið og við byrjuðum að renna því.“
Aðspurð segir Hekla að haldið sé í upphaflegan texta verksins þrátt fyrir að þýðingin sé orðin um 30 ára gömul og innihaldi ýmsar skírskotanir til þess tíma. „Það eru nokkur innskot frá okkur því þetta er nemendasýning. Jóel hefur leikstýrt verkinu áður og vissi hvar væri gott að breyta textanum til að hann hentaði okkur betur. En það er töff að halda í textann því verkið gerist í gamla daga.“
Alls er áformað að sýna verkið sex sinnum. Á morgun er lokuð nemendasýning en fyrir almenning eru tvær sýningar á laugardag, ein á sunnudag og lokasýning næsta þriðjudag.