Leikskólinn Lyngholt til fyrirmyndar
Heilsueflingarverkefnið Heil og sæl í vinnunni, sem Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið standa að, veitti á dögunum fjórum fyrirtækjum/skólum viðurkenningu sem fyrirmyndarvinnustaðir, þ.e. Actavis, leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði, Íslandspósti og Snælandsskóla í Kópavogi.
Verkefnið Heil og sæl í vinnunni er sam-evrópskt verkefni, ,,Move Europe", sem stóð yfir allt árið 2008 með þátttöku 70 vinnustaða. Markmið þess er að efla heilsu og forvarnir á vinnustöðum, með áherslu á hreyfingu, heilsusamlega næringu, streituvarnir, tóbaksvarnir og áfengis- og vímuefnavarnir.
Vinnueftirlit ríkisins hefur haft umsjón með verkefninu en unnið það í nánu samstarfi við Lýðheilsustöð og það voru þeir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, og Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar, sem veittu viðurkenningarnar.
Lyngholt – Fjarðarbyggð
Lyngholt er fjögurra deilda leikskóli sem starfar í anda hugmynda Howards Gardner um fjölgreind. Á leikskólanum eru börn frá aldrinum 1- 6 ára og starfsmenn eru 26. Allir geta eitthvað, enginn getur allt eru einkunnarorð skólans og leiðarljós þeirra í öllu starfi er að hver og einn fái notið sinna styrkleika því þannig byggist upp sjálfsmyndin. Lyngholt er samkvæmt veitendum viðurkenningarinnar fyrirmyndardæmi um lítinn vinnustað sem vinnur að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsueflingu án þess að það hafi mikil fjárútlát í för með sér. Stofnaður var lýðheilsuhópur og markmið hans er að skoða allt starf leikskólans út frá heilsusjónarmiðum.