Leiksýningin Grease frumsýnd á morgun í Egilsbúð

Á morgun, þriðjudaginn 14. mars klukkan 20:00, verður leiksýningin Grease frumsýnd af 9. bekk Nesskóla í Egilsbúð. Löng hefð er fyrir því að 9. bekkur í Nesskóla setji upp leiksýningu og noti ágóðann af því til þess að fara í 9. bekkjar ferðalag saman.

Leikstjóri verkefnisins er Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir og Danshönnuður er Guðrún Smáradóttir. Það verða alls fimm sýningar í vikunni.

Þórfríður segir leikferlið hafa gengið vel og að þrátt fyrir mikinn söng og dans í leikritinu séu krakkarnir jákvæð og dugleg. „Oft er þetta pínu púsl því þau eru í mörgum íþróttum en þetta hefur allt gengið upp og flestir náð að keppa ásamt því að mæta á nánast allar íþróttaæfingar með leikæfingunum,” segir Þórfríður.

Þórfríður segir stuðningur foreldra mikilvægur í ferlinu. „Foreldrarnir hafa staðið sig ofboðslega vel og eru með okkur í Egilsbúð á æfingum að aðstoða og græja ýmislegt í kringum leiksýninguna.”

Þórfríður segir hópinn vel stemmdan fyrir frumsýningu og að þau séu vel undirbúin. Fagridalurinn er hins vegar að stríða þeim aðeins í dag. „Það er generalprufa í kvöld og ég er með 3 leikara sem eru fastir á Egilsstöðum sem er smá stressandi,” segir Þórfríður. „Við krossum fingur að það opnist smá glufa á Fagradalnum svo við getum haft Generalprufu í kvöld.”

Þórfríður segist vera virkilega stolt af hópnum og hvetur flesta til þess að koma og sjá sýninguna.

Mynd: William Geir Þorsteinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.