Leiksýningin Grease frumsýnd á morgun í Egilsbúð
Á morgun, þriðjudaginn 14. mars klukkan 20:00, verður leiksýningin Grease frumsýnd af 9. bekk Nesskóla í Egilsbúð. Löng hefð er fyrir því að 9. bekkur í Nesskóla setji upp leiksýningu og noti ágóðann af því til þess að fara í 9. bekkjar ferðalag saman.
Leikstjóri verkefnisins er Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir og Danshönnuður er Guðrún Smáradóttir. Það verða alls fimm sýningar í vikunni.
Þórfríður segir leikferlið hafa gengið vel og að þrátt fyrir mikinn söng og dans í leikritinu séu krakkarnir jákvæð og dugleg. „Oft er þetta pínu púsl því þau eru í mörgum íþróttum en þetta hefur allt gengið upp og flestir náð að keppa ásamt því að mæta á nánast allar íþróttaæfingar með leikæfingunum,” segir Þórfríður.
Þórfríður segir stuðningur foreldra mikilvægur í ferlinu. „Foreldrarnir hafa staðið sig ofboðslega vel og eru með okkur í Egilsbúð á æfingum að aðstoða og græja ýmislegt í kringum leiksýninguna.”
Þórfríður segir hópinn vel stemmdan fyrir frumsýningu og að þau séu vel undirbúin. Fagridalurinn er hins vegar að stríða þeim aðeins í dag. „Það er generalprufa í kvöld og ég er með 3 leikara sem eru fastir á Egilsstöðum sem er smá stressandi,” segir Þórfríður. „Við krossum fingur að það opnist smá glufa á Fagradalnum svo við getum haft Generalprufu í kvöld.”
Þórfríður segist vera virkilega stolt af hópnum og hvetur flesta til þess að koma og sjá sýninguna.
Mynd: William Geir Þorsteinsson