Leita að fólki til að elda úr austfirsku hráefni
Hallormsstaðaskóli leitar að áhugasömum einstaklingum sem eru til í að taka þátt tilraunum með matreiðslu úr austfirskum hráefnum um helgina. Eldamennskan er hluti af stóru rannsóknarverkefni á vegum Háskóla Íslands um sjálfbært, heilsusamlegt matarræði. Vinna við það verður kynnt áður en byrjað verður að elda.Þverfaglegur vísindahópur frá HÍ hefur undanfarin misseri unnið að rannsóknaverkefninu „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði – Vísindi sem vegvísir í átt að sjálfbærri framtíð“. Sérfræðingar frá ólíkum sviðum skoða þar mismunandi matarræði með áherslu á kolefnisspor. Niðurstöðurnar nýtast við stefnumótun til að ákveða hvernig eigi að stefna að sjálfbæru, heilsusamlegu mataræði og vistvænni matvælaframleiðslu á Íslandi, í takt við síaukna þörf á aðgerðum sem sporna við loftslagsbreytingum.
Þrír doktorsnemar, nýdoktor og prófessor við HÍ halda erindi um vinnuna í Hallormsstaðarskóla klukkan tíu á laugardagsmorgunn. Meðal annars fjallar einn þeirra um samanburð á áhrifum lífrænnar og venjulegrar lambakjötsframleiðslu á umhverfið meðan annar ræðir daglegar áskoranir í sjálfbærri og heilsusamlegri matarneyslu. Erindin eru öllum opin.
Vonast eftir fólki með fjölbreyttan bakgrunn
Tilraunaeldhúsið fer síðan af stað eftir hádegið. Þar er leitað eftir fólki af Austurlandi til að koma og elda úr austfirsku hráefni en einnig ræða við rannsóknahópinn um hvað sé í þeirra huga sjálfbært, heilsusamlegt hráefni.
„Við erum ekki að leita eftir Michelin-kokkum heldur frekar þverskurði úr samfélaginu, barnafjölskyldum, einstaklingum, pörum og svo framvegis. Það þarf hvorki að koma með uppskriftir né hráefni, við leggjum hráefnið til og veitum ráð. Það má gera brauð eða pönnukökur en við verðum líka með lamb, hreindýr, þurrkaðar austfirskar jurtir sem krydd og fleira,“ segir Bryndís Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla.
„Rannsóknahópurinn er forvitinn að heyra hvort fólk sé duglegt að nýta hráefni úr austfirskri náttúru, hvort það viti hvað sé framleitt er og hvernig Austfirðingar hugsa um fæðu og mat,“ bætir hún við.
Mikils virði að fá rannsóknahóp á Austurland
Rannsóknahópurinn verður fyrir austan um helgina og hluti hans lengur við frekari rannsóknir. Bryndís segir mikils virði fyrir fjórðunginn að fá heimsókn sem þessa.
„Rannsakandi á vegum hópsins kom austur fyrir ári og sýndi áhuga á okkar starfi. Það er mikils virði fyrir okkur að fá svona hóp því við erum hér með framúrskarandi hráefni. Þetta sýnir að við getum hýst spennandi rannsóknarverkefni á Austurlandi og það ýtir undir þekkingarsamfélagið á svæðinu sem aftur hvetur til nýsköpunar. Við höfum aukið rannsóknaverkefni á vegum Hallormsstaðaskóla og erum opin fyrir margvíslegu samstarfi.“