Lesið úr Aðventu í aðdraganda jóla
Sunnudaginn 13. desember efna Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands öðru sinni til kyrrðarstunda í Gunnarshúsum á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík og á Skriðuklaustri með upplestri á Aðventu. Skáldsaga Gunnars Gunnarssonar um Fjalla-Bensa og fylginauta hans, sauðinn Eitil og hundinn Leó, verður þá lesin í heild sinni á báðum stöðum. Lesturinn hefst kl. 13 á Dyngjuvegi 8 og þar mun Jón Hjartarson leikari lesa söguna. Á Skriðuklaustri hefst lesturinn kl. 14 og þar les Þorleifur Hauksson en hann mun einnig lesa Aðventu á Rás 1 fyrir þessi jól.
Í tilkynningu frá forstöðumanni Gunnarsstofnunar segir að Aðventa sé sú saga Gunnars Gunnarssonar sem þýdd hefur verið á flest tungumál og á mörgum heimilum víða um lönd er lestur hennar fastur hluti af undirbúningi jólanna. Allir er velkomnir í Gunnarshús í Reykjavík og í Fljótsdal næstkomandi sunnudag til að hlýða á góðan lestur. Heitt verður á könnunni og geta gestir komið og farið að vild en lesturinn tekur um tvær og hálfa klukkustund.